143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi náttúrugripasafnið þá deili ég þeirri skoðun. Ég taldi það geta orðið góða lausn, að minnsta kosti í bili, að við kæmum upp myndarlegri sýningu í Perlunni. Við yrðum kannski að taka lengra tilhlaup í að byggja það sem hefur alltaf verið minn draumur; að við byggðum glæsilegt náttúrugripasafn á svæði háskólans. Mér finnst að það ætti að standa í Vatnsmýrinni nálægt jarðvísindahúsinu og þar. Ég gerði tilraun til þess þegar Síminn var seldur að hafa samband við þáverandi ráðamenn landsins mesta, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, og leggja til við þá að einhver hluti af því fé færi í að byggja náttúrugripasafn en sú hugmynd hlaut ekki brautargengi.

Varðandi stöðu ríkisfjármálanna held ég að það sé hárrétt ályktað að sökum þess að við eigum náttúrlega talsvert óunnið að klára eftirköst hrunsins, og langstærsta verkefnið eru þar gjaldeyrishöftin og þessi geysilega krónustaða útlendinga sem er hér lokuð inni, að þá munu ríkisfjármálin alltaf vera tvöfalt mikilvægari, þrefalt mikilvægari eða hvað við eigum að segja, sem kjölfesta og sýnilegt tákn þess að við séum að ná tökum á málunum. Ég held að við þolum enn síður en ella nokkurt (Forseti hringir.) ábyrgðarleysi í því hvernig ríkisfjármálum er lokað (Forseti hringir.) á næstu árum.