143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kem hingað upp fyrst og fremst af því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagðist hafa hlustað á stjórnarandstæðinga en efaðist samt um að við værum sammála honum í því að stefna að hallalausum fjárlögum. Ég held að ég hafi byrjað allar ræður sem ég hef haldið um fjárlögin og meira að segja um aukafjárlögin að það gleddi mig og það væri sérstakt ánægjuefni að hægt væri að stefna að hallalausum fjárlögum. Ég vil að það sé alveg ljóst í huga hv. þingmanns að ég styð ríkisstjórnina í því markmiði hennar, klárlega.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að það skiptir meginmáli að hafa aga í ríkisfjármálum. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Ég óska ríkisstjórninni alls hins besta í því að halda aga í ríkisfjármálum. Á hinn bóginn er náttúrlega ljóst að við vildum fara mjög ólíkar leiðir til að gera það. Þingmaðurinn getur ekki neitað því að það er staðreynd að með því að fara ekki þá leið sem lögð var til t.d. í veiðigjöldunum afsalar ríkisstjórnin sér einum 6 milljörðum að ég held á næsta ári sem hefðu getað farið í Landspítalann. Ég er líka hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það er nauðsynlegt að setja fé í Landspítalann. Um það er enginn ágreiningur. Þess vegna er óþarfi að standa hér og hafa hátt um það að við viljum ekki stefna að hallalausum fjárlögum og viljum ekki setja fé í Landspítalann. En við vildum afla fjárins öðruvísi en þessi ríkisstjórn gerir.