143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að fara svona ítarlega í gegnum hver sagan hefur verið varðandi þróunaraðstoðina. Ég er honum og mörgum öðrum hér inni hjartanlega sammála, það er skammarlegt að við skulum ekki ætla að standa við þau áform sem uppi voru. Sérstaklega finnst mér nauðsynlegt að fara yfir þetta eins og þingmaðurinn gerði vegna þess að búið er að þvæla svo mikið með þetta, hvernig þetta liggur, það er mjög nauðsynlegt að það sé alveg skýrt hvernig þessum málum er háttað.

En mig langar að tala aðeins um skráningargjöldin. Í þessu frumvarpi um forsendur til fjárlaga kemur fram að skráningargjöldin eigi að fara úr 60 þús. kr. upp í 75 þús. kr. en í fjárlögunum sjálfum stendur að ríkistekjur af skrásetningargjaldi og útgjöld þeirra vegna eigi að hækka um 39,2 millj. kr. vegna nýrra nemenda, 3.300 ársnemenda. Getur hv. þingmaður eitthvað greitt úr þessu fyrir mig? Mér sýnist þetta allt stangast hvað á annars horn og þingmaðurinn vakti athygli á því, þegar við vorum með fjáraukalögin um daginn — um 300 millj. kr. sem var verið að fara með í menntamálaráðuneytinu og nú er búið að færa það aftur til baka vegna þess, að mér skilst hér á þingskjali, að sú ráðstöfun þótti ekki standast. Þarf ekki bara að fá Ríkisendurskoðun til að athuga hvort þetta standist með skrásetningargjöldin?