143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var bara að vísa í að það kom frétt um ályktun á held ég síðasta landsfundi VG varðandi einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Við getum kannski farið yfir það betur á öðrum tíma.

Ég vekja athygli hv. þingmanns á því, af því að hann talaði um að skorið hefði verið niður i öllum málaflokkum, að það voru ýmsar stofnanir og liðir sem hækkuðu mikið á síðasta kjörtímabili. Ég er ánægður að heyra að hann hefur líka talað fyrir þessu sjónarmiði þá. Það eru allra handa eftirlitsstofnanir, ég fór yfir þetta áðan í ræðu minni af því að ég er búinn að taka þetta saman, undirstofnanir umhverfisráðuneytisins og annað slíkt, þannig að það var ekki forgangsraðað í þágu heilbrigðisþjónustunnar á síðasta kjörtímabili, því miður. Þess vegna eru við í þeirri stöðu sem við erum í núna. En ég heyri það að hv. þingmaður er sjálfum sér samkvæmur og talaði fyrir því þá eins og hann gerir núna og ég fagna því.