143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvelt að tala um að ekki hafi verið reynt að verja heilbrigðiskerfið á síðasta kjörtímabili. Ég er klárlega ekki sammála hv. þingmanni um að þar hafi verið gengið harðast fram, síður en svo. Við gerðum það sem var hægt við afar erfiðar aðstæður til að verja kerfið.

Ég lýsti þeirri skoðun minni áðan að í sumu hefðum við gengið fulllangt fram, fullhart fram. Það er algjörlega þannig. Ég get alveg farið yfir það með hv. þingmanni hér á eftir yfir kaffibolla hvernig við hefðum getað gert það öðruvísi. En eftir stendur að heilbrigðis- og menntakerfið voru þeir þættir í þjónustu hins opinbera sem helst var hlíft á síðasta kjörtímabili.