143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að tala um efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins og það að þeir vilja vera sá flokkur sem er þekktur fyrir og treyst fyrir að halda vel á efnahagsmálunum. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að það á náttúrlega að skattleggja eitthvað á Íslandi. Við erum með allt of háa skatta en það þarf að skattleggja eins og staðan er.

Hvar á þá að taka þennan skatt? Eins og hv. þingmaður nefnir var ekki haldið áfram með þá hugmynd að hækka sérstök veiðigjöld á sjávarútveginn og svo gistináttagjaldið á ferðaþjónustuna. Það eru akkúrat þau svið efnahagsins sem hafa fengið hvalreka á sínar fjörur í formi lægri krónu — sem hefur skaðað alla hina — þannig að ef skattleggja á einhvers staðar á að sjálfsögðu að skattleggja þar sem hvalinn rak á land.

Þetta er því ekki skynsamleg efnahagsstefna, þetta er ekki skynsamleg skattstefna, bara alls ekki. Þetta er kosningaloforðsdæmi, það er verið að hugsa um þá hagsmunaaðila sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa hugsað um alla tíð, það er það sem þetta er. Þetta er kosningaloforð. En þetta er slæm efnahagsstefna.

Ég hlakka til að sjá Sjálfstæðisflokkinn fara að vinna í því að halda betur á spöðunum þegar kemur að efnahagsstefnu landsins. Það á eftir að gerast, held ég, en þetta er ekki góð byrjun.