143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var slæmt að hv. þingmaður gat ekki bent á neitt sem gagnaðist láglaunafólki í þessu frumvarpi. Ég held að þeir sem hafa lúslesið frumvarpið geti það varla heldur.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í þann blóðuga niðurskurð hjá Vinnumálastofnun sem hefur komið fram og veldur auðvitað miklum áhyggjum víða. Ég nefni stað eins og Skagaströnd þar sem 20 manns vinna hjá Vinnumálastofnun. Verði af niðurskurðinum munu 5% íbúa Skagastrandar missa vinnuna, sem svarar til 6 þús. manna í Reykjavík. Verið er að skera niður hjá Vinnumálastofnun um 340 millj. kr., það er niðurskurður upp á 30%. Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það hafi á vinnumarkaðsaðgerðir síðustu ríkisstjórnar sem hafa skilað gífurlegum árangri? Atvinnuleysið er komið niður í 4–5% en samt er þörf á að halda áfram eftirfylgni (Forseti hringir.) við þau verkefni sem hafa verið í gangi.