143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég beitti mér svo sannarlega í þessum málum á síðasta kjörtímabili þegar ég sagði já ásamt þingheimi öllum — fyrir utan einn þingmann, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttir sem núna er formaður fjárlaganefndar — við því að gera áætlun um hvernig við gætum aukið hlutfallið. Við samþykktum það öll sem vorum hér inni á þeim tíma og ástæðan var einföld: Við þurftum að setja okkur það markmið af því að við vorum farin að sjá til sólar í fjárlögum ríkisins. Það sem er verið að gera hér er allt annað en fráfarandi ríkisstjórn gerði nokkurn tíma. Hér koma tillögur frá ríkisstjórninni og þingmenn í meiri hluta fjárlaganefndar eru að taka ákvörðun um að skera niður þróunaraðstoðina sem gengur þvert gegn þeirri áætlun sem þingmenn höfðu sameiginlega gert í þessum þingsal um aukningu á framlögum til þróunarmála til lengri tíma.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta grátlegt, ekki síst í ljósi þess að með því að taka fjármuni úr þróunaraðstoð er verið að fjármagna lækkun á veiðigjaldi til þeirra sem eru með einkaleyfi á því að nýta auðlindir þjóðarinnar. Það er þess vegna, í því samhengi, sem þetta er svo grátlegt. Fráfarandi ríkisstjórn gat sett sér markmið um hvernig ætti að auka hlutfallið. Við jukum það á þessu ári í samræmi við þá áætlun og núna eru menn að skera það niður. Það er verið að skera niður tillögur ríkisstjórnarinnar sem komu fram þannig að maður hefði haldið að menn gerðu ráð fyrir því að eiga fyrir þessu og það eru þingmenn í meiri hluta fjárlaganefndar sem ákveða að skera þróunaraðstoðina niður. Það er ekki síst grátlegt af því að tillögurnar voru komnar fram. Hv. þingmaður, sem situr í fjárlaganefnd, segir okkur kannski hvað býr þarna að baki og af hverju (Forseti hringir.) þingmenn ákveða að breyta svona.