143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[11:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hygg að meiningin hafi verið að ég undirritaði nefndarálitið með fyrirvara, það hefur ekki ratað inn í skjalið en það kemur ekki að sök að segja má, ég geri þá munnlega grein fyrir sjónarmiðum mínum hér. Ég mun styðja málið, ekki síst í ljósi þess að ég tel þær breytingar sem lagðar eru til af hálfu efnahags- og viðskiptanefndar vera til bóta, einkum og sér í lagi að taka inn helmingsafslátt á stimpilgjaldsskyldu kaupsamninga þegar um fyrstu íbúðarkaup er að ræða. Ella hefði útkoma málsins getað orðið sú að stimpilgjöld hefðu hækkað nokkuð á þeim sem væru að kaupa sína fyrstu íbúð borið saman við fyrra fyrirkomulag, sérstaklega ef menn væru að kaupa hana og fjármagna að verulegu leyti sjálfir án mikillar útgáfu skuldaskjala. Einnig í ljósi þeirra breytinga sem búið var að gera varðandi yfirtöku og endurskipulagningu lána. Ég tel tvímælalaust rétt að viðhalda þessum sérstaka stuðningi við fyrstu íbúðarkaupendur.

Að öðru leyti sneri fyrirvari minn að því sem framsögumaður fór vel yfir og við ræddum talsvert í nefndinni, þ.e. möguleg áhrif á stöðu annarra lánastofnana. Það verður ekki fram hjá því horft að þetta gæti haft tilhneigingu í þá átt að ýta frekar en hitt undir uppgreiðslur og þar með uppgreiðsluáhættu Íbúðalánasjóðs einkum og sér í lagi sem á mikla fjármuni útistandandi í lánum sem að hluta til eru ekki með heimild til að setja á þau uppgreiðsluálag. Þessi staða sjóðsins er viðkvæm eins og allir þekkja. Rót vandans liggur í miklum mistökum sem gerðir voru í fjármögnunarstrúktúr hans á sínum tíma á fyrstu árum aldarinnar, en við þurfum að horfast í augu við.

Það hefði auðvitað verið æskilegt að menn væru komnir lengra með úrræði eða endurskipulagningu á þessum málum Íbúðalánasjóðs, en það er að sjálfsögðu rétt sem hér er tíundað í nefndaráliti að í grunninn er það ekki hlutverk efnahags- og viðskiptanefndar í sjálfu sér í löggjöf um stimpilgjöld að takast á við þann vanda. En það er hins vegar mikilvægt að menn séu meðvitaðir og upplýstir um hann og hægri höndin viti hvað sú vinstri gerir. Stjórnvöld eru ábyrg fyrir báðum hliðum málsins, þ.e. þessari lagasetningu sem getur haft nokkur áhrif í þessa átt og hins vegar málefnum hins opinbera lánasjóðs, Íbúðalánasjóðs.

Almennt er breytingin til einföldunar. Það er til góðs. Eins er að segja um þá breytingu sem valin er hér og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra nefndi sjálfur í framsögu að væri rétt að skoða hvort til einföldunar væri að miða einfaldlega við fasteignamatsverð eða matsverð samkvæmt fasteignaskrá en vera ekki að reyna að eltast við kaupverð í samningum. Það er væntanlega til mikillar einföldunar í framkvæmd en gerir kröfur til þess að fasteignamatið sé sem réttast.

Það er að vísu rétt sem hér kom líka fram og er reifað í nefndaráliti að þetta er fyrir marga minni breyting en annars hefði verið eftir tilkomu bráðabirgðaákvæðanna 2008, sem voru síðan gerð varanleg 2012, um niðurfellingu á stimpilgjöldum á skjölum sem eru endurfjármögnun eða endurnýjun á fyrirliggjandi lánum. Það var óumflýjanlegt vegna þeirra miklu skuldaaðgerða og margs konar breytinga sem urðu á högum fólks hér eftir hrunið að hafa einhverjar slíkar útgönguleiðir, því ekki hefði bætt úr skák ef hvers kyns endurfjármögnun og endurskipulagning skulda hefði kallað á greiðslu stimpilgjalda.

Það er tvímælalaust jákvætt frá sjónarhóli samkeppni á fjármálamarkaði að aflétta stimpilgjaldsskyldu af lánsskjölum, skuldaskjölum, vegna þess að það á að greiða fyrir hreyfanleika fólks, það velji sér fjármálastofnanir til viðskipta óháðar því að sitja fast hjá þeim með lán og þurfa að sæta greiðslu stimpilgjalda ef það greiðir lánin upp og fjármagnar það á öðrum stað o.s.frv.

Þetta held ég að skipti talsverðu máli vegna þess að það er ærin ástæða til þess að hafa áhyggjur af þeim „átthagafjötrum“ sem hin mikla skuldsetning vill auðvitað hafa í för með sér og þar með verulegar takmarkanir á eiginlegri eða raunverulegri samkeppni á fjármálamarkaði. Það má mjög deila um það hversu frjáls fyrirtæki, sem eru mjög skuldug og hafa jafnvel að einhverju leyti gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu hjá sinni meginhöfuðlánastofnun, eru að því að færa til viðskipti sín. Af þessu hafa ýmsir áhyggjur.

Það sama gildir upp að vissu marki með almenning. Það skiptir máli að ekki séu sérstakar hindranir í vegi þess að menn geti eftir atvikum fært sig til með sín viðskipti ef þeim bjóðast betri kjör annars staðar eða ef þeir eru ekki sáttir við þá þjónustu sem þeir hafa fengið á fyrri stað.

Þetta er því breyting til bóta og málið í heild sinni sem slíkt til einföldunar. Það viðheldur hins vegar tekjum ríkisins sem ég tel mikilvægt og ég er kannski í vissri sérstöðu hér í hópnum eða miðað við suma aðra að ég græt það alls ekki neitt að vera hér að endurskoða og festa í sessi löggjöf til töku stimpilgjalda. Ég horfi ekki á neinn sérstakan í salnum, herra forseti. Aðrir hafa haft það mjög á oddi að þessi gjöld hverfi með öllu, en í fyrsta lagi eru þau tekjustofn sem munar um. Í öðru lagi má færa fyrir því ágæt rök að ekkert óeðlilegt sé við það að einhver skattur sé lagður á gerninga af þessari stærðargráðu. Hann má að sjálfsögðu ekki vera um of íþyngjandi eða hamlandi, en þetta er vel þekkt fyrirbæri og í einhverju formi. Við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum hampa ég að minnsta kosti ekki því sjónarmiði, þótt aðrir geri það, að þessar breytingar eigi endilega að skoðast sem liður í og undirbúningur undir endanlegt og fullt afnám stimpilgjalda á næstunni, enda er hér verið að smíða góða löggjöf utan um töku stimpilgjalda. Mér segir svo hugur að þau muni verða við lýði einhver næstu árin.

Herra forseti. Þetta voru þau sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri. Ég hafði hugsað mér að rita undir nefndarálit með fyrirvara, en ég er ekki að óska eftir endurprentun á því, ég hef komið sjónarmiðum mínum hér munnlega á framfæri og mun ég styðja bæði breytingartillögurnar og málið í heild.