143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[20:44]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Fyrst ætla ég að fara í örstuttu máli yfir það sem ég tel jákvætt og fullt tilefni til að styðja. Til dæmis eru liðir hér varðandi frítekjumark barna og frítekjumark vaxtatekna. Eins eru framlengd ýmis ákvæði sem hafa verið ívilnandi á undanförnum árum og var gripið til í kjölfar efnahagsþrenginganna, t.d. það að óheimilt sé að skuldajafna barnabótum og ógreiddum meðlögum við opinberar skuldir og farið er með barnableiur niður í 7% virðisaukaskattsstig. Full ástæða er til að styðja það en þó finnst mér ástæða til að taka alvarlega ýmsar athugasemdir bæði úr fjármálaráðuneytinu og eins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í ágætri skýrslu um íslensk skattamál segir að undanþáguákvæði í virðisaukaskattslögunum séu orðin of mörg. Það ætti að vera ákveðið verkefni, sem við ættum að fara í á þessu kjörtímabili, að reyna að einfalda virðisaukaskattskerfið. Þó að þetta sé út af fyrir sig gott mál þá tel ég að sterk og veigamikil rök hnígi að því að lægri þrep virðisaukaskatts séu ekki heppilegar leiðir til tekjujöfnunar og að frekar ætti að hafa eitt virðisaukaskattsstig og nota þá aðrar aðferðir til að flytja til fjármagn til tekjujöfnunar, ég held að það sé svona affarasælla.

Engu að síður eru ýmis önnur svona ívilnandi ákvæði eins og 2/3 endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna kaupa eða leigu á hópferðabílum eða almenningsvögnum. Og ég fagna því að átakið Allir vinna er framlengt og ívilnandi ákvæði er þarna fyrir umhverfisvæna bíla. Þetta er allt saman gott og blessað og ég sé líka ástæðu til að styðja það að fólk geti áfram tekið út séreignarlífeyrissparnaðinn sinn en gert er ráð fyrir því í breytingartillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Hins vegar verður maður líka að setja fram þá spurningu hvenær þessi ákvæði öll, allar þessar aðgerðir sem gripið var til í eftirleik hrunsins — hvenær ætlum við að afnema þessar aðgerðir, hvenær ætlum við að hætta þessu? Allir vinna er mjög gott mál en á einhverjum tímapunkti verðum við kannski að fara að spyrja okkur hvort við ætlum bara að hafa þetta svona, að virðisaukaskattur verði endurgreiddur af byggingarframkvæmdum og viðhaldi hjá einstaklingum. Ég hugsa að við þurfum að fara að taka þá umræðu og eins náttúrlega með séreignarlífeyrissparnaðinn. Ef það er orðið viðvarandi og til langs tíma að fólk geti tekið hann út þá er þetta náttúrlega orðið eitthvert annað kerfi en lífeyriskerfi. Ég vil hvetja til þess að þessi umræða verði tekin einhvern tíma, að við ýtum þeim bolta ekki á undan okkur. Ég held að öllum yrði greiði gerður þó að þetta séu góð mál og góðar aðgerðir sem gripið var til. Allir vinna er dæmi um skattaaðgerð sem er mjög hvetjandi og virkaði þannig að hún hvatti til aukinna umsvifa og hvetur enn til aukinna umsvifa í hagkerfinu.

Vík ég þá að því, sem er fyrsta setningin í nefndaráliti mínu, að við tökum undir það markmið að mikilvægt sé að lækka skatta og álögur á fólk og fyrirtæki. Við teljum mikilvægt að aðgerðir af því tagi skili tvíþættum árangri, að þeirra sjái tilfinnanlega stað í launaumslaginu eða í rekstri fyrirtækjanna og hins vegar að þær virki hvetjandi. Hér hef ég verið að rekja ýmsar aðgerðir í skattamálum sem hafa náð árangri á þann veg að þær hafa hvatt til aukinna umsvifa eins og til dæmis Allir vinna.

En þá kem ég að síðari hluta ræðu minnar sem er það sem ég vil gagnrýna. Í fyrstu grein frumvarpsins er lögð til 0,8% lækkun á tekjuskatti á milliþrepi og ég tel að sú tekjuskattslækkun nái ekki því tvíþætta markmiði sem ég nefndi hér áðan, um að virka hvetjandi á atvinnulífið og efnahagslífið, að því marki að það sé þess virði að verja til hennar 5 milljörðum króna úr ríkissjóði. Ég tel líka að þetta skili litlum ávinningi í launaumslaginu, þetta er það lítil skattalækkun fyrir einstaklingana en mjög mikið fé úr ríkissjóði.

Að þessari niðurstöðu komumst við í Bjartri framtíð eftir mjög mikla yfirlegu. Við höfum rætt þetta mál mjög mikið vegna þess að okkur er mjög umhugað um — við skilgreinum okkur sem frjálslyndan stjórnmálaflokk og við viljum hafa einfalt skattaumhverfi. Við viljum að ríkisreksturinn sé árangursríkur og ekki of umsvifamikill. Við viljum að fólk njóti ágóða af erfiði sínu og við teljum að veigamikil rök hnígi að því að skattar og álögur séu orðin of íþyngjandi í samfélaginu. Það má til dæmis sjá þegar maður skoðar bókhald einyrkja sem þarf að borga skatta og launatengd gjöld sjálfur, þá fer gríðarlega stór hluti af innkomunni í ríkiskassann. Eins teljum við það mjög mikilvægt verkefni að einfalda skattkerfið og gera það gagnsærra, að fólk viti í hvað skattféð fer. Ekki þarf annað en að skoða bréf frá tollstjóra, þegar hann er að innheimta opinber gjöld hjá einstaklingum og fyrirtækjum, til að sjá hversu ógagnsætt þetta er allt saman. Það þarf alveg sérstaka gráðu til að skilja skammstafanirnar sem eru á þessum bréfum.

Það er því ýmislegt sem þarf að gera varðandi skattkerfið til að gera það betra og til að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og hitt og þetta. En þessi aðgerð er misráðin, þessi tekjuskattsaðgerð, og það er af nokkrum orsökum. Það er í fyrsta lagi það að hún nær, að okkar mati, ekki þessum árangri og það er stutt áliti frá greiningardeildum einhverra banka, lásum við. Einnig er ástæða til þess í þessu samhengi að gagnrýna einfaldlega ákveðið kæruleysi sem virðist vera ríkjandi með tekjuhlið opinberra fjármála. Það er gríðarlega mikil fjárþörf í opinberum rekstri eftir langvarandi niðurskurð í kjölfar mjög mikilla efnahagsþrenginga, hruns fjármálakerfis. Það var gríðarlegur halli á ríkissjóði strax eftir hrun. Það þurfti að skera mikið niður og við erum ekkert komin út úr þessu.

Viðhaldsverkefni hafa þurft að bíða. Nauðsynleg uppbyggingarverkefni, til dæmis á Landspítala, hafa þurft að bíða. Viðhaldsverkefni í vegakerfinu hafa þurft að bíða, menntakerfinu, hvar sem litið er. Þetta er auðvitað bara eitt form af lántöku. Að ýta á undan sér nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu — það kemur reikningur fyrir því á einhverjum tímapunkti. Það kemur reikningur fyrir mikilli starfsþreytu opinberra starfsmanna. Við þurfum að horfast í augu við þetta. Það er gríðarlega mikil fjárþörf og fjárþörfin birtist líka í því að mjög erfiðlega gengur að ná markmiðum fjárlaga. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins, kemur fram að 38% fjárlagaliða fara fram úr, eru ekki innan heimilda. 166 af 437 liðum keyra fram úr.

Það er áhyggjuefni að í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er ekkert tekið á þessu. Það er kannski verið að skera aftur niður, eða að minnsta kosti ekki verið að auka neinar heimildir til þessara sömu stofnana, þessara sömu fjárlagaliða. Því eru mjög sterkar líkur á að aftur verði framúrkeyrsla á þessu ári. Þetta er einfaldlega birtingarmynd á fjárþörf í kerfinu sem við erum ekki að takast á við. Mér finnst í þessu samhengi ríkisstjórnarmeirihlutinn umgangast tekjuöflunarmöguleikana af talsverðri léttúð. Þarna fara 5 milljarðar kr. í þessa tekjuskattslækkun þegar fjárþörfin er svona yfirgripsmikil. Við höfum mörg hver nefnt það hér í þessum ræðustól hvernig ríkisstjórnin hefur í raun afsalað sér tekjum af veiðigjaldi. Það hefði getað verið hærra og jafnframt réttlátt. Það þurfti að breyta ýmsu hvað það varðaði en það hefði vel getað skilað meiri tekjum á þessu ári og næsta. Eins hefði 14% virðisaukaskattur á ferðaþjónustu alls ekki skipt neinu meginmáli fyrir ferðaþjónustuna en hefði skipt miklu máli fyrir ríkiskassann.

Hér hefur einfaldlega, í kringumstæðum þar sem er mikil fjárþörf, mikil nauðsyn á uppbyggingu, mikil nauðsyn á viðhaldi og ekki síður mikil nauðsyn á niðurgreiðslu opinberra skulda, verið farið of geyst í að afsala ríkissjóði tekjum. Við sjáum síðan niðurstöðuna í fjárlagafrumvarpinu. Það er síðan allt í einu viðurkennt, enda hnigu öll rök að því, að heilbrigðiskerfið væri einfaldlega að þrotum komið. Það var á bjargbrúninni og það þurfti einfaldlega, til að bjarga heilbrigðiskerfinu, að setja 3 milljarða kr. inn í það. Og þá er sá peningur auðvitað ekki til. Menn eru búnir að afsala sér tekjunum og hvert á að sækja peninginn? Vaxtabætur, þróunarhjálp? Mér sýnist í þessu birtast sá veruleiki að það er ekki alveg ígrundað að taka þessa tekjustofna, eins og að lækka tekjuskattinn um 0,8%, til að fara í svona rosalega umdeildar aðgerðir til að bjarga heilbrigðiskerfinu á sama tíma. Það hefði mátt hugsa þetta allt í samhengi.

Núna höfum við þessar kringumstæður; mikil fjárþörf, framúrkeyrsla á fjárlögum, við vitum í raun ekkert um það hvort þau verði hallalaus eða ekki. Mikið er talað um það og ágætt að stefna að hallalausum fjárlögum en margt bendir til að þau verði það ekki á endanum. Þá munu menn kannski naga sig í handarbökin yfir því að hafa misst tekjurnar vegna þess að þá vaxa opinberar skuldir. Það er ekki til neins að vera að lækka tekjuskatt um 0,8% ef opinberar skuldir vaxa. Skuldasöfnun í dag er einfaldlega skattheimta á morgun. Þannig er það bara og það besta sem við gætum gert, ásamt því að reyna að mæta viðhaldi og uppbyggingu sem er nauðsynleg í innviðum samfélagsins, er að greiða niður opinberar skuldir.

Það veldur mér líka áhyggjum að verið er að fara í þessa skattalækkun á sama tíma og allverulega er dregið úr boðuðum áformum um fjárfestingar í nýsköpun, tækni og þróun. Það voru og eru áætlanir um auknar tekjur í náinni framtíð, studdar veigamiklum rökum, reynslu nágrannaríkjanna, og við sjáum það í ríkisfjármálaáætluninni að þessa sókn vantar. Það vantar meiri tekjur, fjölbreyttara atvinnulíf, meiri útflutningstekjur og ekki er fyrirliggjandi nein sókn í staðinn fyrir sóknina sem birtist í fjárfestingaráætluninni. Þess vegna finnst mér varhugavert að fara í mjög bratt afsal á tekjum.

Svo liggur fyrir, eins og það birtist í frumvarpinu, að í raun er verið að fjármagna skattalækkunina með því að seilast í aðra vasa. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir það áðan hvernig minnkandi atvinnuleysi er ekki látið skila sér til atvinnulífsins, ríkið tekur núna til sín tryggingagjaldið í auknum mæli sem leiðir til þess að atvinnulífið nýtur ekki góðs af minna atvinnuleysi. Tryggingagjald lækkar ekki nema smávægilega. Þar með má halda því fram að þessi tekjuskattslækkun sé þá fjármögnuð með peningum úr atvinnulífinu. Er það skynsamlegt? Vakna þá ekki einfaldlega þær spurningar hvort þetta sé ekki leikaraskapur og hverjum sé á endanum greiði gerður?

Hins vegar má líka halda því fram að tekjuskattslækkunin sé fjármögnuð með tímabundnum skatti á fjármálafyrirtæki. Og kem ég þá að því. Yfirferð nefndarinnar á skatti á fjármálafyrirtæki, sem til stendur að eigi að ná yfir fjármálafyrirtæki í slitum, var ágæt. Þó að hún hafi verið knöpp þá varð hún, eins og ég segi í nefndarálitinu, til þess að efasemdir mínar um lögmæti skattsins minnkuðu til muna. Ég tel fulla ástæðu til að styðja þessa skattlagningu en ég geri verulegar athugasemdir við að endanlegt prósentuhlutfall skattsins er ekki enn þá komið til þinglegrar meðferðar. Það finnst mér mjög bagalegt. Við erum hér að afgreiða þetta rétt fyrir jól og það er mjög bagalegt að fá svona stóran og veigamikinn þátt málsins inn á milli 2. og 3. umr. Mér finnst það óþarfi.

Ég held að hægt sé að sækja þessar tekjur en hins vegar vakna mjög stórar spurningar um það hvernig eigi að verja þeim. Í forsendum eða greinargerð með frumvarpinu segir fjármálaráðuneytið að þessi skattur á fjármálafyrirtæki, og einkum og sér í lagi fjármálafyrirtæki í slitameðferð, muni fjara út á árinu 2015, byrja að fjara út þá. Hann fjarar út á miðju kjörtímabili og mun ekki skila áætluðum tekjum á síðari hluta kjörtímabilsins. Það vekur spurningar um eðli þessa skatts og líka um grundvöll áformanna sem boðuð hafa verið á forsendum þessarar skattlagningar. Fara á í skuldaleiðréttingar sem við í Bjartri framtíð höfum miklar efasemdir um að muni skila miklu og fjármagna þær með þessum skatti. Skuldaleiðréttingarnar eiga að taka fjögur ár, 20 milljarðar kr. á ári, sem ná á í með þessum skattstofni en fjármálaráðuneytið sjálft segir að þessi skattstofn muni fjara út á miðju kjörtímabilinu.

Menn verða auðvitað að svara því hvernig þetta á að ganga upp. Það verður að koma eitthvert svar. Það er ekki hægt að segja að það eigi að redda þessu með einhverjum geislum eða á internetinu. Það verður að vera einhver raunhæf áætlun um það hvernig á þá að fjármagna þetta svo að ríkissjóður verði ekki skuldbundinn upp á 20 milljarða kr. í aðgerðaráætlun til að leiðrétta verðtryggðar skuldir án þess að tekjurnar komi inn. Mér sýnist, bara með því að skoða greinargerð þessa frumvarps, að veruleg hætta sé á því.

En gefum okkur að skatturinn geti skilað verulegum upphæðum í þessi tvö ár. Út af fyrir sig vitum við ekkert hvenær þessi bú verða tekin til endanlegra skipta en segjum að þetta skili góðum tekjum í tvö ár. Það væru mikilvægar tekjur en það væru tímabundnar tekjur og ég vil leyfa mér að halda því fram að tímabundnar tekjur í ríkisrekstri sé skynsamlegt að nota til að greiða niður opinberar skuldir. Það veldur varanlegum sparnaði á vaxtagjaldaliðnum í fjárlögunum til þess að fjárfesta skynsamlega. Það skapar arð í náinni framtíð, og góðar leiðir eru fyrirliggjandi í þeim efnum, til nauðsynlegra viðhalds- og uppbyggingarverkefna sem fyrirliggjandi er að fara þarf í fyrr eða síðar. Það finnst mér réttlætanlegt en ég gagnrýni það að taka eigi hluta af þessum bankaskatti sem er tímabundinn og fjármagna, því má halda fram, tekjuskattslækkun upp á 0,8%. Tekjuskattur er varanlegur tekjustofn. Bankaskatturinn, skattur á fjármálafyrirtækin, er það ekki. Þetta eru áherslur í ríkisrekstri sem geta ekki gengið upp, að sækja tímabundnar tekjur og lækka varanlegar tekjur. Það mun leiða okkur í ógöngur fyrr eða síðar.

Mér finnst margt hníga að því, og gagnrýni það mjög, að teflt sé á tæpasta vað varðandi tekjur og gjöld í ríkisrekstrinum af þessari ríkisstjórn. Ýmislegt getur brugðið til beggja vona. Hallarekstur getur orðið á ríkissjóði á næsta ári. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og fagrar vonir þá er það allt í járnum. Ef sú staða kemur upp að hið opinbera neyðist til að safna frekari skuldum, þegar árið 2014 verður gert upp, þá mun það ekki líta vel út að sækja 20 milljarða kr. í bankaskatt og verja honum í leiðréttingar á skuldum heimilanna en ekki til að greiða niður opinberar skuldir og að lækka tekjuskatt um 0,8% sem þýðir 20 milljarða kr. tap úr ríkiskassanum á öllu kjörtímabilinu. Við verðum að hafa vaðið fyrir neðan okkur og það höfum við ekki ef ég skoða fyrirliggjandi frumvörp.