143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina á nefndaráliti og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við fjáraukalagafrumvarpið. Það er eitt mál sem ég vildi aðeins inna hv. þingmann eftir. Það lýtur að málefnum Náttúruminjasafnsins. Ég tek eftir því sem sagt er um það í nefndaráliti og reikna með að við hv. þingmaður getum kannski deilt um það mál og framsetninguna á því og allt eftir því, en ég ætla ekki að dvelja við það, a.m.k. ekki í þessu andsvari, heldur spyrja hv. þingmann hvaða umræður hafi þá farið fram á vettvangi nefndarinnar um lausnir fyrir Náttúruminjasafnið. Hvernig sér meiri hluti nefndarinnar fyrir sér að málum Náttúruminjasafns verði þá fyrirkomið? Ef ekki með þessum hætti, hvernig þá?

Náttúruminjasafnið hefur um langt skeið, og má kannski segja nánast alltaf, búið við hörmulegar aðstæður og hér var reynt að fara leið til að tryggja því aðstöðu til lengri tíma.

Ég átta mig á því að í málflutningnum í áliti meiri hlutans felst gagnrýni á þá aðferðafræði og það fyrirkomulag sem var viðhaft. Gott og vel, menn geta deilt um það, en eftir stendur að það þarf væntanlega með einhverju móti að taka á málefnum Náttúruminjasafnsins. Ég hefði gjarnan viljað heyra hjá hv. þingmanni hvort einhver umræða hefði farið fram um það. Líta þau á það sem seinni tíma mál, hvað á þá að gera við þann leigusamning sem fyrir liggur o.s.frv.?