143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

tollalög o.fl.

205. mál
[23:24]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Frú forseti. Ég mun fyrir hönd hv. efnahags- og viðskiptanefndar mæla fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingar á tollalögum, nr. 88/2005, lögum um vörugjald, nr. 97/1987, lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, með síðari breytingum, er varða sektir, greiðslufrest í tolli, sykurskatt og skilagjald vegna einnota drykkjarumbúða.

Nefndin fjallaði ítarlega um málið og fékk á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Guðrúnu Þorleifsdóttur og Valdemar Ásbjörnsson, öll frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ingunni Ólafsdóttur, Magnús Bjarna Halldórsson, Tryggva H. Blöndal og Stefán Jónsson frá Isavia ohf., Bergþóru Halldórsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Ragnheiði Héðinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins.

Jafnframt bárust nefndinni umsagnir frá Endurvinnslunni hf., Félagi atvinnurekenda, Isavia ohf., Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, tollstjóra og Viðskiptaráði Íslands.

Frumvarpið er í fjórum köflum og lýtur að þeim lögum sem ég fór yfir áðan. Nefndin hefur haft það til meðferðar og hefur fjallað ítarlega um hvern þátt. Þær breytingar sem lagðar eru til á tollalögum miða að því að einfalda starf embættis tollstjóra til hagræðingar fyrir embættið sjálft sem og viðskiptavini þess. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem rakin eru í frumvarpinu og leggur áherslu á mikilvægi þess að hækka sektarfjárhæðir þannig að þær séu til samræmis við almennt verðlag, að öðrum kosti eru þær ekki til þess fallnar að ná tilgangi sínum. Ég bendi á umfjöllun í fylgiskjali sem fylgir frumvarpinu sem útskýrir þetta frekar. Meginrökin fyrir því að hækka sektarfjárhæð tollstjóra eru þau að lágmarkssekt við broti fer í flestum tilvikum langt fram yfir þau sektarmörk sem nú eru í gildi. Sú fjárhæð sem nú er í gildi eru 300.000 kr. en þegar lágmarkssekt brots fer yfir þá fjárhæð hefur tollstjóri þurft að kæra til lögreglu. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið um mikilvægi þess að unnt sé að ljúka málum án aðkomu lögreglu þegar málsaðilar eru sáttir við slík málalok og gangast við broti. Nefndin telur því rétt að umrædd viðmiðunarfjárhæð sektargreiðslu skuli hækkuð frekar og telur rétt að tollstjóri hafi sektarheimildir upp að 3 millj. kr. Lögreglurannsókn og málsmeðferð er kostnaðarsöm og tímafrek og telur nefndin rétt að einfalda kerfið sé þess kostur. Breytingu þeirri sem nefndin leggur til er ætlað að koma í veg fyrir að óþarflega mörg mál séu send frá tollstjóra til lögreglu. Lögreglan er störfum hlaðin og mikilvægt er að leitast við að leysa mál sem þurfa ekki að sæta lögreglurannsókn á annan veg. Breytingin mun þannig spara fé og gera ferlið skilvirkara, einfaldara og flýta afgreiðslu mála.

Í öðru lagi er um að ræða breytingar á lögum um vörugjald sem miða að því að bæta úr hnökrum við framkvæmd laganna gagnvart innlendum framleiðendum. Fram kom að hnökrarnir sneru helst að því að að óbreyttu gæti í einhverjum tilvikum komið upp tvískattlagning þegar hráefni er flutt inn og svo selt áfram. Samkvæmt orðalagi núgildandi 10. gr. laganna er engin endurgjaldsheimild vegna innlendra framleiðenda, sem ekki hafa fengið sérstaka skráningu hjá tollstjóra skv. 5. gr. laganna, vegna sölu til skráðra aðila nema þeir flytji hráefnið eða efnivöru sjálfir til landsins. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að rétt sé að brugðist sé við þessu og leyst úr. Nefndin taldi þá framsetningu sem lögð er til í frumvarpinu ekki nægilega skýra og leggur því til breytingu á 4. gr. laganna sem er til þess fallin að einfalda framsetningu og skýrleika ákvæðisins en efnislega eru markmiðin þau sömu.

Þriðji kaflinn í frumvarpinu snýr að 5. og 6. gr. og lýtur að gjaldfresti í tolli. Um er að ræða framlengingu á heimildum sem hafa verið í gildi og einfaldlega er verið að heimila innflytjendum að skipta greiðslu á aðflutningsgjöldum á tvo gjalddaga. Fram kom á fundum nefndarinnar að ráðgert er að ráðast í heildarendurskoðun á gjaldfrestum á næstunni og telur nefndin því rétt að framlengja umræddan frest áfram þar sem fyrir liggur endurskoðun á reglunum.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, á þann veg að eftirleiðis verður þeim sem hafa leyfi til að selja farþegum og áhöfnum millilandafara við komu til landsins vörur úr tollfrjálsri verslun falið að leggja á og greiða skilagjald af gjaldskyldum vörum samkvæmt lögunum. Nefndin telur að með þessu sé verið að eyða ákveðinni óvissu sem ríkt hefur um greiðslu skilagjalda af umbúðum drykkjarvara sem seldar eru með framangreindum hætti. Í raun og veru er verið að klára mál sem hefur lengi verið uppi og snýr að skilagjaldi farþega sem fara í gegnum Fríhöfnina og kaupa vöru í skilaskyldum umbúðum og fá síðan greitt fyrir þegar þeir skila þeim umbúðum í Endurvinnsluna en sem hefur ekki verið greitt fyrir í Fríhöfninni þannig að verið er að eyða ákveðinni óvissu þar.

Nefndin leggur til að frumvarpið í heild sinni verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, og ég ætla að fara yfir þær breytingartillögur sem fylgja nefndarálitinu. Hin fyrri lýtur að sektarfjárhæðinni í fyrsta kaflanum og er til einföldunar á tollalögum.

Í fyrsta lagi er lagt til að:

1. gr. orðist svo:

Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 1. og 3. málslið 2. mgr. og 1. málslið 3. mgr. 185. gr. laganna kemur: 3.000.000 kr.

Í öðru lagi er breytingartillaga sem snýr að breytingu á lögum um vörugjald og snýr fyrst og fremst að því að framsetningin í frumvarpinu þótti ekki nægilega skýr og því er lögð til eftirfarandi breyting:

4. gr. orðist svo:

Í stað 2. mgr. 10. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Tollstjóra er heimilt að endurgreiða innflytjendum og/eða innlendum framleiðendum vörugjald sem þeir hafa greitt í eftirfarandi tilvikum:

1. Þegar innflytjandi hefur nýtt hráefni eða efnivöru í framleiðslu innflytjanda sjálfs samkvæmt 1. mgr.

2. Þegar innflytjandi eða innlendur framleiðandi selur vöru, hráefni eða efnivöru án vörugjalds til handhafa framleiðsluskírteinis samkvæmt 1. mgr.

3. Þegar innlendur framleiðandi selur vöru án vörugjalds til skráðra aðila samkvæmt 5. gr.

Innflytjandi eða innlendur framleiðandi skal tilgreina í sérstakri skýrslu til tollstjóra um slíka sölu eða nýtingu, þar með talið til hvaða aðila varan er seld, magn vöru og tegund, svo og fjárhæð vörugjalds. Þegar um endanlega framleiðsluvöru er að ræða skal tilgreina innihaldslýsingu. Skýrslu skal skilað eigi síðar en 15 dögum fyrir gjalddaga. Endurgreiðsla skal fara fram á gjalddaga, enda hafi vörugjald vegna viðkomandi tímabils verið greitt.

Virðulegi forseti. Ég vil endilega minnast á að góð samvinna var í nefndinni og stendur hún öll að nefndarálitinu. Ég þakka nefndinni fyrir góð störf í málinu.

Við afgreiðslu málsins voru fjarverandi hv. þingmenn Vilhjálmur Bjarnason, Árni Páll Árnason og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Undir nefndarálitið rita eftirfarandi hv. þingmenn: Frosti Sigurjónsson, Willum Þór Þórsson, Steingrímur J. Sigfússon, Guðmundur Steingrímsson, Pétur H. Blöndal og Sigurður Páll Jónsson.