143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað einstaklega dapurlegur málflutningur enda var þessi samningur gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis eins og lög gera ráð fyrir. Þetta er dapurlegt í ljósi þess að hér hefur verið rætt árum og áratugum saman um nauðsyn þess að koma á almennilegu sýningarhaldi á náttúruminjum. Þetta var rætt mikið á síðasta kjörtímabili og þessi leið valin, enda talin hagkvæm, fremur en að ráðast í nýbyggingu utan um náttúruminjar þjóðarinnar. Ég taldi að að allir hv. þingmenn í öllum flokkum hefðu verið sammála um að brýn þörf væri á að fara slíka tímabundna leið. Nú liggur það fyrir að þessar náttúruminjar verða áfram um sinn geymdar í geymslum Náttúrufræðistofnunar og verða hvorki almenningi né ferðamönnum til sýnis. Það verður áhugavert að heyra hvort ríkisstjórnin hefur einhverri framtíðarsýn fram að tefla í þessu máli miðað við þann mikla áhuga sem ég greindi hjá núverandi stjórnarflokkum sem áður voru í stjórnarandstöðu á því að eitthvað væri gert í þessu máli. Ekki skynjar maður það á þeim málflutningi sem hefur verið uppi um þetta mál.