143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[13:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég kom aðallega upp til að leiðrétta það sem ég sagði áðan. Ég sagði að þetta gæti tryggt börnunum að vera eitt ár heima en það er mikið meira því að þau gætu verið allt að tvö ár heima. Það er kannski það sem skiptir mestu máli, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom inn á hér áðan þegar hún sagði að það væri mikilvægt að foreldrar hefðu val því að börn eru mjög mismunandi þroskuð. Sum eru tilbúin til að fara út í heim jafnvel eins og hálfs árs, ég hef nú ekki kynnst neinu barni sem er yngra en það sem er tilbúið til að fara út í heim, en önnur þurfa að vera heima allt til þriggja ára aldurs vegna þess að þau eru ekki búin að ljúka tengslamyndun heima hjá sér.

Það sem ég er að benda á er að það eru í gildi lög um foreldraorlof sem veita foreldrum heimild til að vera í 16 vikur í launalausu leyfi sem þau ákveða, þ.e. atvinnurekanda ber að fara eftir því sem foreldrarnir óska eftir. Ég sé fyrir mér að fyrst kæmi fæðingarorlof þar sem foreldrarnir skiptast á að vera heima, síðan tæki foreldraorlof við þar sem foreldrarnir væru kannski 40% heima og í 60% starfi hvort um sig, skiptust á um að vinna á vöktum. En þetta foreldraorlof er ólaunað. Með því að breyta lögum með heimgreiðslum sveitarfélaga þannig að í stað þess að borga 180 þús. kr. á mánuði fyrir eins árs barn á leikskóla væri þeim heimilt að borga skattfrjálst til foreldranna fyrsta árið 180 þús. kr. Þá gæti dæmið gengið að einhverju leyti fjárhagslega upp, þá fengju foreldrarnir rúmlega 200 þús. kr. frá sveitarfélaginu reiknað yfir á fullt starf og þótt þau væru bara í 60% starfi hvort um sig mundi það ríða baggamuninn. Þau gætu verið heima í allt að 19 mánuði og jafnvel lengt þann tíma upp í tvö ár með ákveðnum fjárhagslegum fórnum. Með þessu yrði miklu meira val hjá foreldrunum. Það sem skiptir máli er náttúrlega að heimila sveitarfélögum að greiða þennan kostnað, 180 þús. kr. á mánuði, fyrir fyrsta árið, það er dýrast. Það væri þá ekki skattskylt fyrir móttakanda, þ.e. foreldrunum.

Þetta finnst mér að nefndin megi skoða líka. Mér finnst of þröngt að líta bara á fæðingarorlofið, sem er eins og sumir segja ekki nægilega langt. Hér kom fram spurning frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni um stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Þá stöndum við því miður, herra forseti, frammi fyrir því að ríkissjóður borgar 75 milljarða í vexti á ári, það svarar til eins stykkis fullbúins spítala til viðmiðunar. Á hverju einasta ári erum við að borga þetta. Þetta er náttúrlega algjörlega óþolandi staða. Það eru 200 milljónir á dag sem ríkissjóður borgar og allar þær breytingar sem við höfum verið að gera á fjárlögum og fjáraukalögum eru u.þ.b. sú tala, þ.e. jólabónusinn var 280 milljónir og allar tölurnar sem við erum að tala um eru u.þ.b. vextir ríkissjóðs á dag.

Ef við lögum þetta ekki, herra forseti, hverjir taka þá við því? Börnin okkar, einmitt þau sem við erum að tala um hérna, þau munu þurfa að borga mikla skatta í framtíðinni ef við tökum ekki á skuldamálum okkar. Þess vegna finnst mér það vera allt að því barnamál hvernig okkur tekst að ná tökum á stöðu ríkissjóðs, fyrir utan það að þegar ríkissjóður er með halla eykur það verðbólgu sem kemur niður á framfærslu foreldranna, framfærslan er nefnilega verðtryggð. Ef það kemur verðbólga vex framfærsla heimilanna, afborganir af lánum vaxa líka, sem eru verðtryggð, þannig að það er orðið mjög brýnt að koma böndum á halla ríkissjóðs gagnvart heimilunum, gagnvart börnunum og gagnvart afborgunum af lánum, alveg sérstaklega gagnvart börnunum í framtíðinni. Ef við náum ekki að borga niður þessar skuldir þá verða þau að gera það.