143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[10:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skerða vaxtabætur. Við höfum fengið að heyra frá ríkisstjórninni að hún vilji standa vörð um millistéttina og að þeir sem sé verið að skerða vaxtabætur hjá séu hátekjufólk. Nú kemur í ljós að skerðingin byrjar að bíta við 600 þús. kr. fjölskyldutekjur, og við 800 þús. kr. fjölskyldutekjur og 20 millj. kr. íbúðalán er skattahækkun á millitekjufjölskyldur um 20 þús. kr. á mánuði.

Það er nú öll varðstaða þessarar ríkisstjórnar um millistéttina. Það er verið að hækka skatta, það er verið að draga úr fyrirsjáanleika fólks sem gekk að því vísu eftir hrun að það gæti keypt íbúð og gengið út frá vaxtabótum. Fólk á meðallaunum upplifir nú að þessi ríkisstjórn býður upp á nýja tegund af forsendubresti.