143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[10:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna mjög sinnaskiptum þingmanna vegna þessa máls því að sambærileg tillaga var felld við 2. umr. Það er ástæða til að vekja athygli á því að lagaumgjörðin um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar til nýsköpunar- og sprotafyrirtækja hefur ekki útgjaldaáhrif að þessu leyti á árinu 2014 þar sem það er tilfallandi rannsóknarkostnaður á því ári sem er endurgreiddur eða gerður upp á árinu 2015. Hér hefðu menn fyrst og fremst verið að senda afar neikvæð skilaboð inn í framtíðina um að þetta nýsköpunarumhverfi færi versnandi eins og hæstv. ríkisstjórn lagði upp með þetta í haust, reyndar á mörgum sviðum. Það er því miður ekki bara hér sem var vegið að starfsumhverfi rannsókna, þróunarstarfs og nýsköpunar með mikilli skerðingu á framlögum til rannsóknasjóða o.s.frv.

Þótt í litlu sé eru þetta ákaflega gleðileg tíðindi. Ef eitthvað er ættu menn að setjast yfir það á næstu mánuðum að skoða hvort ekki væri skynsamlegt að rýmka þann ramma sem er um þennan stuðning í staðinn fyrir að (Forseti hringir.) skerða hann eins og til stóð.