143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka þetta með skuldamálin. Við viljum sjá útfærsluna og við höfum fyrirvara á því máli á meðan við vitum ekki nákvæmlega hver hún er. Hv. þingmaður getur ekki haft athugasemdir við það (Gripið fram í: Jú.) að menn vilji sjá útfærsluna, vegna þess að að sjálfsögðu er það þannig að komi tekjur eins og 20 milljarðar inn í ríkissjóð hlýtur það að vera eðlileg pólitísk umræða að spyrja hvernig við ætlum að ráðstafa þeim milljónum. Ætlum við að setja það allt í einhverja tiltekna aðgerð og hvernig kemur hún út? Eða ætlum við til dæmis að setja eitthvað í vaxtabætur? Það er líka niðurgreiðsla á — (Gripið fram í.) nei, þetta liggur ekki allt fyrir. Það er ýmsum spurningum ósvarað.

Þeirri spurningu er til dæmis ósvarað hvað á að verða með þá sem skulduðu á þeim tíma sem tiltekinn er, hafa selt eignir sínar og jafnvel flutt úr landi, farið í nám eða farið að vinna erlendis. Það virðist samkvæmt útfærslunni vera þannig að þeir eigi ekki að fá neina leiðréttingu. Það gengur ekki upp að mínu viti. Það fer í bága við þau jafnræðissjónarmið sem þrátt fyrir allt eru lögð til grundvallar í þessari vinnu, eins og ég hef skilið hana. Það eru ýmis svona atriði og ég segi við hv. þingmann: Þetta á eftir að ræða þegar við sjáum nákvæma útfærslu í frumvarpsformi. Það skulum við gera.

Síðan vil ég segja varðandi þróunaraðstoðina að við samþykktum á árinu 2011 fyrstu þróunarsamvinnuáætlunina. Hún var samþykkt hér og það stóðu allir flokkar í utanríkismálanefnd að því nefndaráliti. Þar var tiltekið hvert hlutfallið ætti að vera á hverju ári frá 2011 og áfram. Í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar var staðið við það sem þróunarsamvinnuáætlun sagði um hlutfall. Það er núna fyrst sem er verið að lækka það, það er það sem við erum að gagnrýna.

Varðandi ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í bók hans ætla ég að segja að (Forseti hringir.) í mínum þingflokki kom aldrei annað (Forseti hringir.) til greina en að halda sig við þróunarsamvinnuáætlunina. (Forseti hringir.) Ég veit ekkert hvernig það var á öðrum bæjum.