143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. innanríkisráðherra fyrir það sem hún hefur sagt og lagt inn í þessa umræðu hér og nú. Ég er algjörlega sammála hennar mati, ég tel að það sé hægt að finna lausn í þessu máli ef menn gefa því bara einhvern séns, ef menn fara upp úr skotgröfunum eins og stundum hafa einkennt umræðuna um þetta mál, því miður. Það eru þrátt fyrir allt sameiginlegir hagsmunir, bæði höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar, að um þetta náist sátt. Við vitum að við byggjum ekki þetta land öðruvísi en að hafa öfluga landsbyggð, byggð um allt land, en við þurfum líka öfluga höfuðborg. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra. Við eigum að vinna að þeim.

Ég vann á sínum tíma, þegar ég átti sæti í borgarstjórn, mikla vinnu í tengslum við þetta flugvallarmál, sat bæði sem formaður í skipulagsnefnd og í skipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins þar sem mikið var fjallað um málið og margar úttektir gerðar þannig að mér er alveg kunnugt um hin ólíku sjónarmið sem eru uppi og ber virðingu fyrir þeim. Mér er líka kunnugt um að ýmsir möguleikar hafa verið teiknaðir upp en kannski ekki alveg í þaula og þess vegna legg ég áherslu á að þessi vinna sem nú er í gangi og hæstv. innanríkisráðherra gat um fái að halda áfram í friði og ró. Síðan getum við tekið umræðu að þeirri vinnu lokinni um hvaða lausnir menn sjá til frambúðar.

Ég þakka aftur hæstv. innanríkisráðherra.