143. löggjafarþing — 47. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, um skatthlutfall og fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns.

Við 1. umr. lagði efnahags- og viðskiptanefnd til tvær breytingar. Önnur fjallaði um hækkun skattprósentu á miðþrepi tekjuskatts úr 25% í 25,3% og hin var um hækkun efri marka lægsta þreps tekjuskatts í 3.480 þús. kr. Hækkun efri marka lægsta þreps var gerð með ákvæði til bráðabirgða en nefndin hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að breytingin eigi að vera varanleg. Nefndin leggur því til samræmis til breytingar sem koma fram á þskj. 490.