143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[17:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni styðjum þetta mál enda er verið að hnika ríkisstjórninni í rétta átt. Við hefðum þó talið eðlilegri og betri brag á því ef ríkisstjórnin hefði tekið tilboði aðila vinnumarkaðarins og tekið vel í þá beiðni þeirra að hækka persónuafslátt og mæta með því þörf fyrir hækkun ráðstöfunartekna þeirra sem eru á lægstu laununum. (Gripið fram í.) Morgunblaðið í morgun skýrir það, hæstv. fjármálaráðherra sem kallar hér fram í, og þar segir hæstv. fjármálaráðherra einfaldlega að það að hækka persónuafsláttinn sé of dýr aðgerð. Fyrir liggur hins vegar að hægt hefði verið að fjármagna hana með tilhliðrun í þessum skattkerfisbreytingum.

Það er afstaða hæstv. ríkisstjórnar að gera það ekki og á því verður hún að bera ábyrgð, að forgangsraða með þeim hætti í þágu þeirra sem mest hafa milli handanna.