143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:59]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fagna þessari tillögu til þingsályktunar, en eins og fram hefur komið í orðum þingmanna hér hafa þessi plögg oft og tíðum einna helst líkst óskalistum en ekki aðgerðaáætlunum. Ég hef þó fulla trú á því að nú breytum við því og tel að okkur takist að vinna eftir þessu. Nú er svo komið að þunginn verður sífellt meiri hér á suðvesturhorninu. Hingað hafa flust mörg störf, breytingarnar á samfélaginu hafa orðið gríðarlega miklar og landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið ganga ekki alltaf í takt.

Ég vil taka undir það að við eigum ekki að setja þetta upp sem andstæður, höfuðborgarsvæðið gegn landsbyggðinni. Það kemur okkur ekki neitt áfram af því að hvort um sig þarf á hinu að halda. Þá þurfum við líka að hafa það í huga að landsbyggðin er ekki bara eitthvert eitt tiltekið fyrirbæri, þar eru mjög mismunandi samfélög með mismunandi þarfir og mismunandi samsetningu. Þess vegna þurfum við í flestum tilfellum að skoða hvert samfélag fyrir sig og meta þarfir þess. Við höfum rætt um heilbrigðismálin, hvernig við mætum þeim úti á landi. Það er ekki til ein lausn fyrir öll samfélög þannig að við þurfum að skoða þau í því samhengi.

Hér er talað um jöfnun lífsskilyrða um landið. Það er mjög jákvætt og gott að sjá það hér á prenti. Lögð verður sérstök áhersla á að lífskjör séu þau sömu um allt land, sem og áhersla á valfrelsi til búsetu. Sem fyrstu aðgerðir til að stuðla að þessu verður lögð sérstök áhersla á jöfnun húshitunarkostnaðar og flutningsjöfnun á vörum bæði fyrir almenning og fyrirtæki á landsbyggðinni. Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvenær íbúar á svokölluðum köldum svæðum geta búist við því að sitja við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að þessum hluta.

Ég hef verið að velta því fyrir mér og það hefur verið rætt hér, þingmenn hafa komið inn á það hvers vegna okkur tekst ekki að ná fólki til okkar út á land og hvað við eigum að gera til þess að ná því. Hluti af ástæðunni gæti verið sá að samfélagið er breytt. Fyrir ekki svo mörgum áratugum síðan höfðu nánast allir íbúar svæðisins hér á suðvesturhorninu tengingar út á land, þeir áttu erindi út á land, þeir áttu ættingja þar og fóru og þekktu landið þess vegna. Nú er æ stærri hópur á þessu landsvæði sem hefur engar tengingar út á land og fólk skortir þess vegna kannski skilning á raunveruleikanum sem þar er. Fólk ferðast þó um landið og er mjög jákvætt hvernig ferðamennskan hefur byggst upp, en hún byggist líka á því í nútímasamfélagi að nettengingar og góðar tengingar séu um allt land. Við þekkjum að mörgum fyrirtækjum á landsbyggðinni er það fjötur um fót hversu lélegar tengingar eru á svæðunum, þær eru vissulega ein af grunnþörfunum sem við þurfum að vinna í og koma í lag. Uppbygging fjarskiptakerfisins er gríðarlega stórt byggðamál, hún er eitt af stærri málunum sem við þurfum að huga að. Það er nútíminn.

Mig langar til að velta upp því sem fleiri hafa komið inn á, þ.e. hvernig við getum komið okkur í þá stöðu að auka fjölbreytnina í litlum byggðarlögum. Mörg byggðarlög eru nú í góðu standi, þar er gott atvinnuástand, þar er þokkaleg vinna fyrir alla, en ég hef áhyggjur af því hvernig það verður eftir tíu til fimmtán ár, ekki bara í þeim byggðarlögum sem nú þegar eru í vanda, af því að okkur vantar fjölbreytnina úti um landið í samsetninguna á samfélögunum.

Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort uppi séu einhverjar hugmyndir um að mæta fólki með einhverjum hætti sem er að ljúka háskólanámi. Eru uppi hugmyndir um að gefa afslátt af endurgreiðslu á námslánum? Það hugsa ég að gæti verið góður hvati til þess að flytja út á land. Þó að fólk byggi ekki nema tímabundið úti á landi þá mundi það auka skilning og samskipti. Það styður fólk og hvetur það til að búa áfram úti á landi, af því að landið okkar hefur upp á mörg tækifæri að bjóða. Það er mikill auður um allt land, bæði mannauður og auður í náttúrunni, á fiskimiðunum allt í kring, sem við þurfum að nýta vel.

Ég vildi beina þessari spurningu til hæstv. ráðherra og ég vona að okkur gangi vel að vinna eftir þessari áætlun.