143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[17:46]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um merkingar á matvælum en merkingin er í formi umferðarljósa. Alþingi ályktar fela hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hefja vinnu við undirbúning að upptöku næringarmerkis á hérlendri matvöru.

Ég vil þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir skilmerkilega framsögu en í framsögu hv. þingmanns kom fram að um er að ræða merki að breskri fyrirmynd í formi umferðarljósa sem sýna næringargildi matvæla og kemur merkingin framan á umbúðir þeirra. Hér er um að ræða neytendamál, hér er um að ræða heilbrigðismál og hér er um að ræða gríðarlega stórt lýðheilsumál.

Það skiptir neytendur miklu máli að geta greint upplýsingar um næringargildi matvæla og jafnframt að þær séu skiljanlegar og auðveldi neytendum að taka upplýstar ákvarðanir þegar þeir versla í matinn. Það kom vel fram í máli framsögumanns, hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur, að skyldumerkingar eru oft á tíðum illskiljanlegar og/eða að við þekkjum ekki nægilega forsendur til að geta nýtt okkur upplýsingarnar. Merkingar á borð við þær sem við erum að ræða hér, í formi myndmáls, eru líklegar til að auka meðvitund um næringar- og hollustugildi matvæla og um leið hjálpa fólki að taka ábyrgð á eigin heilsu. Slíkar merkingar geta þannig verið mjög mikilvægt innlegg eða skref í þá átt að berjast gegn þeirri óheillavænlegu þróun og vaxandi vandamáli sem offituvandamál þjóðarinnar er, en í greinargerð með frumvarpinu er sú óhuggulega þróun sett fram og birtist okkur í tölfræði frá liðnum áratug þar sem 21% þegna þjóðarinnar flokkast með offitu samkvæmt mælingum árið 2011, samanborið við 13,1% árið 2002. Það er skuggaleg þróun. Þá eru um það bil 59% fólks á aldrinum 18–80 ára yfir kjörþyngd.

Maður veltir því fyrir sér hvar við erum stödd og hvernig við eigum að bregðast við þegar maður les slíka tölfræði en þetta hafa yfirvöld og sérfræðingar og fræðasamfélagið rætt á undanförnum árum, það vantar ekki, en við þurfum að bregðast við með aðgerðum og þetta mál er til þess fallið.

Þá óhuggulegu þróun sem ég minnist á hér, offituvandamálið, má að einhverjum hluta til rekja til óhollra neysluvenja, mataræðis og að einhverju marki auðvitað til hreyfingarleysis. Því fylgir aukin tíðni lífsstílssjúkdóma sem kosta heilbrigðiskerfið og þjóðfélagið gríðarlega fjármuni.

Virðulegi forseti. Við verðum með öllum tiltækum ráðum að bregðast við og berjast gegn þessari alvondu þróun. Einfaldar, aðgengilegar og skiljanlegar merkingar eins og hér eru til umfjöllunar skipta því miklu máli í þeirri viðleitni okkar og munu auðvelda okkur að velja hollari matvöru, eða síður óholla eftir atvikum. Þá er mikilvægt að skapa samstöðu, trúi ég, allra hagsmunaaðila við undirbúning málsins. Ég er sammála hv. þm. og framsögumanni málsins, Brynhildi Pétursdóttur, varðandi það að kynna málið vel, undirbúa það vel og taka frumkvæði en bíða ekki eftir tilskipun Evrópusambandsins. Við eigum að taka málið alvarlega og í okkar hendur og sýna frumkvæði á þessu sviði og kalla til alla hagsmunaaðila við undirbúning málsins; neytendur, aðila í verslun og þjónustu og í matvælaiðnaði, sérfræðinga, lýðheilsusamtök og ná fram samstöðu í því að vanda okkur við að merkja vörur til heilla fyrir neytendur og framleiðendur. Ég er jafnframt sannfærður um að þetta málefni og slíkar merkingar verði til þess fallnar að auðvelda neytendum að velja hollari lífsstíl og stuðli þannig að auknu heilbrigði þjóðarinnar.