143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[18:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli þeirri fullyrðingu að allar þessar tilskipanir hafi leitt til góðs út af neytendum. Því fer víðs fjarri. Ég skal bara nefna tvö dæmi.

Ástæðan fyrir því að hér var lengi mjög hátt lyfjaverð var vegna þess að við í EES þurftum að taka upp haftaverslun Evrópusambandsins. Áður var það þannig að við höfðum miklu meiri sveigjanleika varðandi innflutning á lyfjum. Eftir að við tókum upp EES-samninginn kom ESB-fyrirkomulagið sem gerði það að verkum að jafnvel þótt búið væri að fara í gegnum ákveðið ferli í öðru landi Evrópusambandsins þurftum við að fara með viðkomandi vöru, þó að hún væri nákvæmlega eins eða sama vara, í gegnum sama ferlið hér. Það er fullkomlega óskiljanlegt kerfi sem gerir það að verkum að lítill markaður fær miklu færri lyf á sinn markað vegna þess að það hreinlega tekur því ekki, það er of dýrt. Og við erum með miklu færri lyf á markaði en þau lönd sem við berum okkur saman við.

Miklu dýrara dæmi er fjármálamarkaðurinn, þá erum við að tala um neytendavernd á fjármálamarkaði. Við tókum án þess að hugsa okkur um upp reglugerðafargan Evrópusambandsins á fjármálamarkaði, t.d. innstæðutilskipunina. Allt er þetta gert í nafni neytendaverndar, alltaf, og alltaf er góður hugur á bak við það. Niðurstaðan varð skelfileg fyrir Íslendinga, skelfileg. Flestar af þeim tilskipunum sem hér koma fram eru sagðar í þágu neytenda.

Við vorum að samþykkja þingsályktunartillögu, ég gerði það að vísu ekki, um tilskipun EES um húsgöngusölu. Þessa stórhættulegu húsgöngusölu þegar krakkarnir ganga í hús og selja okkur alls konar varning til fjáröflunar. Við verðum að líta á þetta með gagnrýnum augum. Þetta er ekki boðlegt. Þetta hefur kostað okkur gríðarlega fjármuni. Við þurfum að hafa eftirlit með allra handa hlutum sem engin ástæða er til að hafa eftirlit með og ég nefni húsgöngusölu sem dæmi sem við þurfum örugglega að setja fjármuni í til að hafa eftirlit með. Einnig eru skýr dæmi um það að tilskipun Evrópusambandsins hafi lagt mikinn kostnað sérstaklega á neytendur.