143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek undir þetta. Það verða örugglega fjörugar umræður um málið þegar það kemst á dagskrá, ég efast ekki um það, og mikilvægt er líka að fá umsagnir frá öllum aðilum. Umræðan verður vonandi skemmtilegri og upplýstari þegar menn eru búnir að fá að heyra öll sjónarmið frá framleiðendum sjálfum, Samtökum verslunar og þjónustu, Neytendasamtökunum, Hjartavernd og fleirum þannig að ég hlakka til að taka þátt í þeirri umræðu.

Ég veit að hv. þingmanni er annt um ríkissjóð og það er mér líka. Ein ástæðan fyrir því að ég flyt málið er að ég trúi því að þetta muni spara heilbrigðiskerfinu peninga. Við vitum að lyfjakostnaður er ansi hár, ef farið er til dæmis á kólestróllækkandi lyf eða annað slíkt. Breytt mataræði og betri lífsstíll sparar útgjöld ríkisins.