143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

læknaskortur.

[10:40]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Umræðan um skort á heilbrigðisstarfsfólki, þá sérstaklega læknum, hefur farið hátt undanfarið. Fyrir áramót var mikið rætt um manneklu á lyflækningasviði Landspítalans og það alvarlega ástand sem var að skapast vegna þess. Þar vantar enn lækna í dag. Þá hafa læknakandídatar og aðrir af því verulegar áhyggjur að sérfræðilæknar skili sér ekki heim úr sérfræðinámi erlendis. Til þess séu aðstæður hér á landi hreint út sagt of lélegar, starfsumhverfið fornfálegt og starfsskilyrði almennt verri en læknar upplifa annars staðar.

Það er skortur á sjálfstætt starfandi barnageðlæknum og aldur geðlækna almennt fer hækkandi. Margir þeirra fara að komast á eftirlaun og ekki þykir sýnt að yngri geðlæknar komi í þeirra stað.

Árið 2001 fór velferðarráðuneytið af stað með að kanna menntun heilbrigðisstétta og vinna að mannaflaspá. Lagt var upp með að ráðuneytið gerði reglulega spár um mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins. Hagfræðistofnun HÍ vann árið 2006 skýrslu þess efnis en hvatinn að henni var verulegur skortur á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum.

Mig langar til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig ráðuneytinu gangi að viðhalda þessari vinnu. Hvernig líta spárnar um mannafla í heilbrigðiskerfinu út núna miðað við þann veruleika sem við búum við eftir hrun?