143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

úrbætur í fangelsismálum.

[10:46]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að bygging nýs fangelsis á Hólmsheiði mun ekki leysa allan vandann í fangelsismálum. Þar verða aðeins rými fyrir rúmlega 50 fanga en á móti verður lokað fangelsinu á Skólavörðustíg og í Kópavogi þannig að fjölgun rýma er mjög lítil. Á sama tíma eru tæplega 500 manns á biðlista eftir afplánun. Það er ljóst að það mun ekki fækka svo neinu nemur á þeim lista þrátt fyrir nýtt fangelsi á Hólmsheiði.

Á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli er mikið af ónýttu húsnæði. Sem dæmi má nefna gömlu sjúkrahúsbygginguna. Þar erum við að tala um 4 þús. fermetra byggingu á einni hæð. Sú bygging er í góðu standi, búið að endurnýja lagnir og hreinsa allt út og eyða nokkrum tugum milljóna í þá framkvæmd. Þetta er sem sagt 4 þús. fermetra salur.

Félagið Icelandic Health ætlaði að nýta sér bygginguna undir sjúkrahús fyrir erlenda sjúklinga en ekkert varð af því. Á sama tíma og þessir 4 þús. fermetrar eru ónýttir finnst ekki pláss fyrir tæplega 500 manns sem bíða afplánunar. Þá má ekki gleyma því að íslenskir skattgreiðendur eru nú þegar að borga um 600 millj. kr. á ári með gamla varnarsvæðinu.

Því beini ég þeirri spurningu til hæstv. innanríkisráðherra hvort þetta umrædda húsnæði sem ég minnist hér á hafi verið skoðað sem möguleiki fyrir nýtt fangelsi eða annað húsnæði á gamla varnarsvæðinu.