143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og góð orð í garð þess sem ég vona að verði tilkynnt í dag. Þær tillögur sem ég nefndi áðan voru kynntar í allsherjar- og menntamálanefnd í morgun og síðan verður það kynnt frekar í dag, þ.e. þessi skipting.

Varðandi nákvæmlega tilhögunina á fjármagninu gerir þingmannanefndin tillögur til mín um ráðstöfun umræddra 500 milljóna. Það felur í sér aukningu á lögreglumönnum um rúmlega 40, mér sýnist að það gæti stefnt í 43 miðað við þá aukningu. Ástæðan fyrir því að við nefnum þessa tölu sem er nær 50 er einmitt vegna þess að viðbótarframlagið til rannsókna er vegna kynferðisbrota og einnig vegna skipulagðrar glæpastarfsemi. Það kom viðbótarframlag bæði til lögreglunnar í Reykjavík, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, og til lögreglunnar á Suðurnesjum sem gerir það mögulegt að hægt er að halda í þann starfsmannafjölda sem annars hefði þurft að minnka. Það er því hárrétt sem fram kemur hjá þingmanninum. Ég tek hjartanlega undir með honum að mikilvægt er að halda því áfram. Þess vegna tekst okkur að tryggja það að þessi fjöldi sé nálægt 50. Og það er vegna þess að ákvörðun var tekin og mikil samstaða var um það eins og menn muna hér á þingi að tryggja — ég held tvisvar sinnum, ef ég man rétt, 35 milljónir til hvors embættis sem gerir okkur kleift að við getum haldið þeim fjölda eða tryggt þann fjölda sem þarf til þess að efla rannsóknir er varða kynferðisafbrot og eins varðandi skipulagða glæpastarfsemi.