143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[14:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Allt frá því að þessi ríkisstjórn tók við valdataumunum hefur verið ótrúlegur vandræðagangur í þessu umdeilda máli og misvísandi skilaboð til þjóðarinnar. Ekki treystu menn sér til að slíta viðræðunum, sem hefði mátt ætla miðað við yfirlýsingar margra stjórnarliða fyrir kosningar og allt síðasta kjörtímabil. Ekki hafa menn treyst sér til að efna kosningaloforð beggja stjórnarflokkanna um að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB að loknum kosningum.

Nú er beðið eftir úttekt og skýrslu um stöðu viðræðna og þróun mála innan ESB sem þinginu er ætlað að fjalla um, gott og vel. En það er eins og núverandi stjórnarflokkar eigi mjög erfitt með að höndla þetta átakamál sem einhvern tíma verður að fá botn í, hvort sem við viljum vera utan ESB eða ganga þar inn. Það er líka ótrúlegt að stjórnvöld vilji áfram fá IPA-styrki miðað við fyrri yfirlýsingar um þau mál og núverandi stöðu viðræðna.

Landsfundarsamþykktir VG eru skýrar. Við teljum að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið utan ESB. En við höfum þá lýðræðislegu hugsjón að leiðarljósi að þjóðin eigi að hafa aðkomu að þessu umdeilda og erfiða máli og eigi rétt á að taka upplýsta afstöðu til skýrra valkosta miðað við hvar málið er statt í dag.

Við skulum ekki gleyma því að þingið hefur haft þetta mál í meðförum sínum allt frá því að aðildarumsóknin var samþykkt hér og þar höfðu menn mismunandi afstöðu þvert á flokka. Ég var ein af þeim sem greiddu atkvæði á móti, en ég lýt þeirri lýðræðislegu niðurstöðu sem var afgreidd hér af þinginu og tel að við stjórnmálamenn eigum ekki að taka þann rétt af þjóðinni að ákvarða næstu skref.