143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Oddgeir Ágúst Ottesen (S):

Herra forseti. Ég ætla að fjalla um hagfræðileg áhrif tillagna sérfræðingahóps um niðurfærslu á verðtryggðum lánum. Ég tel að nokkurs misskilnings gæti um mikilvægi þess að efnahagslegar aðgerðir hafi jákvæð áhrif á hagvöxt til skamms tíma. Aðgerðir sem örva eftirspurn og hagvöxt tímabundið þurfa nefnilega alls ekki að vera þjóðhagslega hagkvæmar.

Tökum sem dæmi einfalda aðgerð sem fælist í að Alþingi keypti sjónvörp og gæfi hluta heimila landsins. Slík aðgerð mundi auka landsframleiðslu lítillega. Einhver mundi fá greitt fyrir að flytja sjónvörpin til landsins, einhverjir mundu hagnast á því að selja sjónvörpin til Alþingis en þetta væri alls ekki hagkvæm efnahagsleg aðgerð sem mundi auka verðmætasköpun í landinu. Aukinn innflutningur mundi veikja gengi krónunnar og auka verðbólgu. Hagvöxtur í framtíðinni mundi dragast saman.

Eins er það með niðurgreiðslu á verðtryggðum skuldum heimila landsins. Slíkar greiðslur auka fyrst og fremst einkaneyslu og innflutning tímabundið en hafa lítil eða engin áhrif á verðmætasköpun í landinu. Greiðsla verðbólgubóta leiðir til þess að gengi krónunnar veikist og verðbólga eykst að öðru óbreyttu. Annað er óbreytt. Aðgerðin er ekki efnahagslega hagkvæm. Sérfræðingahópur sem mat efnahagsleg áhrif greiðslu verðbólgubóta komst að þeirri niðurstöðu að aðgerðin mundi ekki auka verðbólgu. Ástæðan er sú að í þeim líkönum sem sérfræðingahópurinn notaði leiðir aukinn innflutningur á vörum og þjónustu til að gengi krónunnar styrkist, þ.e. ef Íslendingar fara að kaupa meira af innfluttum vörum styrkist krónan í líkaninu, sem er ákveðin þversögn. Sú niðurstaða gengur gegn lögmálinu um framboð og eftirspurn sem er ekki umdeilt lögmál innan hagfræðinnar. Það eru áratugir síðan ég heyrði stjórnmálamenn tala um að hagfræðilögmálin virkuðu ekki á Íslandi en ég vona að alþingismenn taki ekki ákvarðanir byggðar á þeirri forsendu.

Aðgerðin er ekki einungis óhagkvæm, hún er einnig að mörgu leyti óréttlát. Margir af þeim sem fá verðbólgubætur, ef tillögur sérfræðingahópsins verða samþykktar af Alþingi, hafa hagnast af fasteignaviðskiptum. Þeir sem til dæmis keyptu íbúð 2004 mundu ekki vilja fara aftur til baka og fara á leigumarkaðinn á þeim tíma. (Forseti hringir.) Seðlabankinn hefur skoðað áhrif þess að skattpeningar séu notaðir til að greiða niður verðtryggð lán heimilanna. Flest virðist benda til þess að að meðaltali feli slíkar aðgerðir í sér tilfærslu á fjármunum frá tekjulægri hópum þjóðfélagsins til þeirra tekjuhærri, frá þeim eignaminni til þeirra eignameiri. Slík ráðstöfun fjármuna truflar mig mjög mikið og ég er hissa ef hún truflar ekki alla þingmenn.