143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

Fiskistofa og vinnubrögð stofnunarinnar.

[14:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Á tveimur mínútum sem mönnum eru ætlaðar komast menn kannski ekki yfir allt sem þeir vildu sagt hafa.

Fram hefur komið, sem við vitum auðvitað, að mikið vald er vandmeðfarið. Það er stundum erfitt hjá stofnunum í okkar litla landi, sem koma jafnvel að því að semja lagafrumvörp eða reglur í framhaldi af lagafrumvörpum að eiga svo að vera eftirlitsaðili í framhaldinu. Það verður stundum til þess að árekstrar verða. Til dæmis það sem komið hefur fram í umræðunni sem byggist á lýsingu hv. þingmanns, sem mér finnst mjög alvarlegt og merkilegt hvernig með það er farið og hvað það tekur langan tíma, meira að segja að héraðsdómur hafi fellt sitthvað úr gildi og Fiskistofa hafi þurft að endurgreiða sektir með vöxtum.

Ég vil líka taka undir það, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, að í umgengni um þessa mikilvægu auðlind okkar og þetta mikla kerfi sem veltir mörgum milljörðum og er ríkur þáttur í okkar þjóðarbúskap þarf eftirlitið samt sem áður að vera með festu og skilvirkni, sem er mjög mikilvægt. Þar dugar ekki neinn losarabragur, ef svo má að orði komast.

Virðulegi forseti. Það er þetta meðalhóf sem við erum sífellt að reyna að finna, við þurfum að skoða hvort við séum með það of þröngt afmarkað. Það er rétt sem kom fram, ég held í ræðu hæstv. ráðherra, að það sama á náttúrlega að gilda um aðrar stofnanir, allar stofnanir hins opinbera. Þær þurfa að fara með eftirlitsvaldið af festu og skilvirkni en gæta líka meðalhófs. Það er það sem vantar. Þess vegna ítreka ég það sem ég sagði áðan, ég fagna þessari umræðu og ég fagna því að ráðherra ætli að taka þetta til skoðunar vegna þess að það má ekki vera neitt óljóst hvað þetta varðar.