143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

opinber skjalasöfn.

246. mál
[14:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið inn á Alþingi. Mér sýnist með afar hraðri yfirferð margt vera betra en áður var, en ég hef samt sem áður nokkrar spurningar sem mér þætti vænt um að fá svör við.

Í fyrsta lagi langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti útskýrt fyrir mér í stuttu máli hvort það sé þannig í þessum nýju lögum að viðkomandi skjalabiðjandi þurfi að vita nákvæmlega heiti á skjali. Ef svo er, hvort það hafi verið skoðað hvort hægt sé að hafa víðtækari leitarheimildir í skjölum.

Þá langar mig að spyrja við hvað málshraðinn er miðaður. Erum við að miða okkur við einhver sérstök lönd þegar talað er um 25 daga og 30 daga sem hámark tímans sem stofnunin hefur til þess að afhenda gögn?

Þá langaði mig jafnframt að spyrja hvort sá sem biður um skjölin þurfi að bera af því einhvern kostnað. Ég ætla svo í síðara andsvari að koma með aðra spurningu, ef ráðherra hefur tök á að svara þessu núna.