143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslugjöfina. Um hana hafa skapast miklar umræður, bæði manna á milli, í fjölmiðlum og í menntageiranum, vegna þeirrar niðurstöðu sem hún leiðir í ljós og sýnist nú sitt hverjum.

Í PISA 2012 var lögð áhersla á stærðfræðilæsi. Voru 2/3 hlutar prófsins á því sviði. Prófið var haldið í 65 löndum um alla veröldina, eins og komið hefur fram, og einnig var prófað í lesskilningi og náttúrufræðilæsi. Því miður versnar frammistaða íslenskra nemenda verulega frá árinu 2009. Sé horft til allra PISA-mælinga frá upphafi hefur nemendum hrakað um sem nemur hálfu skólaári síðasta áratug.

Niðurstöðurnar eru hreint ekki alvondar. Á bls. 18 má sjá að stærðfræðilæsi á Íslandi er upp á 493 stig, sem er ekki frábrugðið meðaltali OECD-ríkjanna, sem er 494, þ.e. einu stigi meira. Á Norðurlöndunum er Ísland á svipuðum stað og Danmörk og Noregur og marktækt hærri en Svíþjóð, sem er með 478 stig, en lægri en Finnland, sem er með 519 stig. Við megum heldur ekki gleyma því þegar við tölum um slakt læsi að brugðist var við því fyrir nokkrum árum með útbreiðslu námsefnis og kennsluaðferða, m.a. því sem kallað hefur verið byrjendalæsi, og þeir nemendur sem farið hafa í gegnum það eða byrjað á því eiga eftir að taka PISA-könnun, þeir eru bara í 5. bekk í dag.

Af því að hér var rætt aðeins um hvort nemendur landsbyggðarinnar fengju síður hvatningu til þess að halda áfram námi eða vildu fyrr fara út á vinnumarkaðinn þá held ég að það sé ekki endilega þannig. Þegar við tölum um læsi og af því að ég kem úr skólageiranum, er bæði kennari og náms- og starfsráðgjafi, þá hef ég átt þess kost að fylgja mislæsum börnum og ungmennum á milli skólastiga. Ég velti líka fyrir mér rafrænu læsi þegar ég starfaði í Menntaskólanum á Tröllaskaga, sem er mjög skapandi skóli. Þar hefur komið fram í óformlegum könnunum að nemendum sem eru lesblindir eða annað slíkt finnst betra að lesa á tölvuskjá en við sem erum af eldri kynslóð viljum helst prenta hlutina út, flest hver, held ég. Það er eitt af því sem við þurfum að skoða í þessu efni.

Þrátt fyrir þá niðurstöðu sem fram kemur í PISA-könnuninni þá kemur hún ekkert sérstaklega á óvart, en hún veldur auðvitað vonbrigðum og er áminning um að við þurfum og getum gert betur. Ekkert próf eða mat er óskeikult. Heyrst hafa efasemdaraddir þess eðlis að PISA-könnunin sé ekki í samræmi við stefnu og strauma sem efst eru á baugi í menntamálum í dag og mæli ekki nógu vel það skólakerfi sem stór hluti fólks berst fyrir að taki við af hinu gamla. Enda lækkaði stór hluti þeirra landa í könnuninni sem standa fyrir markvissri og metnaðarfullri skólaþróun, en þau lönd sem hækkuðu eða komu vel út teljast vera frekar íhaldssöm samfélög.

Nám hefur gjarnan gengið út á að nemendur læri staðreyndir og geti komið þeim frá sér í rituðu eða töluðu máli. Í nýrri aðalnámskrá sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili er hins vegar gert ráð fyrir aukinni fjölbreytni í námi og kennsluaðferðum, skapandi ferli þar sem nemendur læra aðferðafræði, verkferla, gagnrýna hugsun, tilraunir og athuganir og prófa sig áfram með úrlausnir. Það er ekki mælt í PISA-könnuninni, enda eru nemendur afar ólíkir innbyrðis með ólíka hæfileika og áhugasvið og því þarf að mæta á sem fjölbreyttastan hátt. Skólagerðir eru afar misjafnar. Ég tel að kennarar okkar hafi til margra ára lagt sig fram um að koma til móts við nemendur á fjölbreyttan hátt eins og möguleiki hefur verið á hverju sinni.

Í PISA-könnuninni kemur fram að skólabragur og viðhorf nemenda hafi batnað. Auðvitað þurfum við að velta fyrir okkur niðurstöðunum. Hvers vegna eru þær eins og raun ber vitni? Hvað þurfum við að ræða um? Þurfum við að ræða eitthvað annað en skólana, kannski samfélagsuppbygginguna þegar ekki gengur sem skyldi þrátt fyrir betri líðan nemendanna?

Í lokin langar mig aðeins að minnast á þann mikla mun sem er á frammistöðu innfæddra og innflytjenda í öllum greinum. Í þeim efnum þurfum við að taka okkur enn frekar á. (Forseti hringir.) Langar mig í því samhengi að benda þingmönnum og skólafólki á litla grein í Fréttablaðinu í dag þar sem sagt er frá afar áhugaverðu verkefni (Forseti hringir.) Dalvíkurbyggðar. Um er að ræða foreldraverkefnið Söguskjóður sem miðar að því að efla erlenda (Forseti hringir.) foreldra til þátttöku í skólastarfinu, sem ég tel vera forsendu til að styrkja stöðu þessara nemenda.

Að síðustu vil ég segja að að vissulega (Forseti hringir.) ber okkur að rýna þessa niðurstöðu okkur til gagns.