143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.

268. mál
[16:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd vegna þess að hér er um að ræða eitthvað sem hugsanlega gæti storkað engu minna en tilvist tungumálsins sjálfs. Eins og hv. þingmaður nefndi sjálfur urðu fyrr á tíðum miklar byltingar í kjölfar prenttækninnar og notkun stafrófs og ritmáls og þau tungumál sem ekki tileinkuðu sér slíka tækni eru ýmist dauð eða deyjandi.

Ég minnist þess sérstaklega að þegar ég bjó í Kanada kynntist ég svokölluðum indjánum — ég ætla að hætta á að nota það hugtak og vona að það sé ekki orðið of ljótt hérlendis — og þeir tala næstum því allir ensku. Örfáir, sem kalla sig heppna, af ungu kynslóðinni tala ennþá sitt eigið móðurmál, svo sem Cree, Ojibwe, Otchipwe eða Oji-Cree. Þetta eru deyjandi tungumál vegna þess að þau hafa ekki ritmál.

Ég hef hitt nokkra aðila í Kanada af slíku bergi brotna og þeir eru oft mjög reiðir út í að það vantar menningu þeirra. Þau hafa ekki aðgang að menningunni sinni. Þau þekkja ekki sögurnar sínar, þau þekkja ekki vísurnar sínar. Þau skilja ekki afa sína og ömmur, vegna þess að þau skilja ekki menningarlega samhengið. Þetta er eitthvað sem ég þykist nokkuð viss um að enginn á Íslandi vilji. Við þurfum að halda í menninguna okkar og þurfum að halda í söguna okkar. Við þurfum að hafa skilning á okkar eigin sögu, sérstaklega vegna þess að hún er svo löng og hún er svo ítarleg og hún er svo áhugaverð. Stundum ljót og stundum falleg. En við viljum gera þetta, við viljum halda í íslenska tungu, á því er enginn vafi, held ég, og enginn ágreiningur. Þá er eina spurningin hvort við trúum því að að henni steðji ógn.

Ég tel óhjákvæmilegt að þegar tækin halda áfram að þjóna veigameiri þætti í okkar daglega lífi aukist líkurnar á því að íslenskan verði ýmist óþörf eða jafnvel til trafala, og við því verðum við að bregðast. Við verðum að bregðast við því með því að gera eitthvað. Það er ekki nóg að sleppa því að nota enskuna, það er ekki nóg að sleppa því að nota hin Norðurlandamálin, við þurfum að sýna frumkvæði í því að vernda íslenska tungu, við þurfum að leggja í þetta vinnu, okkur þarf að vera alvara.

Það má líka nefna að þó að meiri hluti Íslendinga tali nú hina prýðilegustu ensku þýðir það líka að við þurfum minna á íslenskunni að halda í samskiptum við erlendar þjóðir. Því gætu sumir kannski spurt: Til hvers þurfum við þá íslenskuna fyrst við erum öll að verða nokkuð fær á ensku hvort sem er? Í fyrsta lagi þurfum við að vera í tengslum við okkar eigin sögu og okkar eigin menningu. Í öðru lagi, jafnvel bara frá vísindalegu sjónarmiði, væri áhugavert að sjá hvernig fornt og fallegt tungumál, svo sem íslenska, tungumálið sem Grágás er skrifuð á, eða fornútgáfan á íslensku er skrifuð á, þróast á 21. öldinni. Það eitt og sér er áhugaverð vísindaleg spurning burt séð frá þeirri staðreynd að íslenskan er gimsteinn íslenskrar menningar.

Þegar ég hef hitt fólk erlendis sem tilheyrir þjóðernum eða ættbálkum sem tala mjög lítið af sínu eigin deyjandi máli hefur oft verið í þeim þessi reiði. Þá minni ég þau á að vera ekki reið. Lærið tungumálið ykkar, talið við ömmur ykkar, talið við afa ykkar, vegna þess að þannig lærið þið inn á menninguna, þannig skiljið þið vísuna, þannig skiljið þið brandarana. Nákvæmlega ekkert er menningu mikilvægara en tungumálið. Glötum ekki þeim gimsteini með andvaraleysi.