143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

velferð dýra.

210. mál
[15:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um frumvarp til laga breytingu á lögum um velferð dýra, mikinn málaflokk og lagafrumvarp sem samþykkt var á síðasta þingi í breiðri sátt allra flokka á þingi. Mig undrar að menn telji að það eigi nú að vera forgangsvinna ríkisstjórnarinnar að draga úr eftirliti með velferð dýra. Við þekkjum dæmi sem komið hafa upp á undanförnum mánuðum og árum þar sem þessi mál eru langt frá því að vera í góðu lagi. Við vitum ekkert hvar það getur borið niður. Að byggja þetta, eins og þessar breytingar ganga út á, á áhættuflokkun sem er ekki búið að vinna og liggur ekki fyrir finnst mér mjög alvarlegur hlutur. Það liggur heldur ekkert fyrir um það hvað eigi að sparast í þessum málum.

Ég skora á þá sem bera velferð dýra fyrir brjósti að greiða atkvæði gegn þessari breytingu. Hún er ekki velferð dýra í landinu til framdráttar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)