143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[15:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta afskaplega mikilvæg umræða, það sést best á tölunum sem liggja undir. Nefndar eru tölur á bilinu 14 milljarðar og allt upp í 40 milljarða og jafnvel meira, sem eru tekjur sem ættu að renna í ríkissjóð ef allt væri í lagi.

Ég held hins vegar að þetta sé viðfangsefni sem þarfnast víðrar nálgunar. Ég tek undir að vissulega þarf að bæta eftirlit og eftirfylgni með því að fólk borgi skatta, en ég held að við séum öll sammála um að það þurfi meira til. Regluverkið er eitt, umgjörð atvinnurekstrarins, að það sé fólki skiljanlegt. Það þarf að auka upplýsingar til almennings og leiðbeiningar. Það slær mig alltaf þegar ég tala við fólk sem stendur í einyrkjarekstri hvað það fórnar oft höndum yfir því að það skilji ekki umhverfið. Við verðum að horfast í augu við það að fullt af fólki aflar sér tekna án þess að vera á neinn hátt sérfræðingar í skattalöggjöf eða kunna að skila skatti samkvæmt ýtrustu lögum og reglum. Ég held að stór hluti fólks sem stendur í einyrkjabúskap viti t.d. ekki hvað hugtakið „reiknað endurgjald“ þýðir svo að dæmi sé tekið, grundvallarhugtak í öllum svoleiðis rekstri.

Ég held því að það þurfi að stíga svolítið stór skref. Ég veit að ríkisskattstjóri hefur verið að því, hann hefur bætt þjónustuásýnd sína mikið. En mér hefur fundist skorta á samtal t.d. milli ríkisskattstjóra og tollstjóra í þessum efnum. Mér finnst enn þá allt sem kemur frá tollstjóra frekar óskiljanlegt og í óskiljanlegum skammstöfunum sem ég held að geri fólki erfitt fyrir.

Svo hefur atvinnulífið líka breyst. (Forseti hringir.) Nú eru margir að bjóða upp á heimagistingu. Þar er örugglega mikið um undanskot. (Forseti hringir.) Þar þurfum við líka að búa til lagaumgjörð, regluumgjörð sem gerir fólki auðveldara fyrir að greiða heiðarlega sinn skatt.