143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu, hún hefur verið góð. Það er hins vegar eitt sem ég saknaði örlítið frá hæstv. fjármálaráðherra, ég spurði hann hvort aukin samþjöppun ylli honum áhyggjum. Ég fékk reyndar ekki svar við því en hann minntist á Bretland og það er alveg rétt hjá honum, í Bretlandi eru þrjár stórar keðjur sem eru ráðandi á markaði. Ég held að þær hafi samtals sömu markaðshlutdeild og stærsta keðjan okkar hefur ein þannig að þar er dálítið ólíku saman að jafna.

Það sem ég vil segja líka er að þær verslunarkeðjur sem stærstar eru á Íslandi bera samfélagslega ábyrgð, og eftir því sem þær verða stærri því meiri ábyrgð bera þær. Það er hins vegar vandi okkar neytenda, það hefur verið talað dálítið um að við neytendur eigum að passa okkur og fara í aðrar verslanir o.s.frv. og ekki fara í búðir sem eru opnar allan sólarhringinn. Þetta er allt saman rétt og satt. Málið er hins vegar að við höfum ekki upplýsingar um hvernig verðið verður til.

Ég veit ekki um marga menn sem vakna klukkan hálffjögur á nóttunni og langar allt í einu í rjóma og rjúka út í búð. Ég mundi leggjast á hina hliðina og halda áfram að sofa ef ég vaknaði upp við það. Við getum hins vegar ekki gert það sama og fólk sem í auknum mæli kaupir vörur sem auðvelt er að flytja, fatnað og ýmislegt annað, pantar þær í pósti erlendis frá. Við pöntum ekki matvörur í pósti. Þrátt fyrir að menn tali hér um vörugjöld, og mikil ósköp, þau eru há og það er brýn þörf á því að gera það kerfi einfaldara, þá er þetta samt þannig að vissar vörutegundir er hagstæðara að panta í pósti erlendis frá, borga vörugjöldin, borga tollinn, borga skattinn og við erum samt með lægra verð. Hvaða hlekkur í keðjunni er þá eftir? Það er verslunin.

Við skulum því halda vöku okkar. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, þetta er viðvarandi verkefni og við skulum hafa það viðvarandi. Við skulum tala um þetta hér (Forseti hringir.) eins lengi og þarf og eins oft og þarf.