143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

kjarasamningar og verðlagshækkanir.

[10:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fjölmörg stéttarfélög hafa því miður fellt nýgerða kjarasamninga. Ríkisstjórnin hefur spillt fyrir gerð kjarasamninga, bæði með því að hafna hækkun á persónuafslætti og með verðlags- og gjaldahækkunum upp á jafnvel 20 og 25% í aðdraganda kjarasamninga. Við hljótum þess vegna að krefja fjármálaráðherra svara um það hvort ríkisstjórnin sé ekki tilbúin að afturkalla gjaldahækkanir og endurskoða afstöðu sína til persónuafsláttar til að tryggja frið á vinnumarkaði, sátt um kjarasamninga og stöðugleika í efnahagsmálum landsins.

Við vöruðum við því eindregið í umræðunum í desember um skattamálin að ríkisstjórnin væri að setja í forgang skattaívilnanir fyrir fólk í hátekjuþrepinu en hafnaði óskum verkalýðshreyfingarinnar um hækkun á persónuafslætti. Við vöruðum við því að það gæti haft slæm áhrif á kjarasamninga.

Ég hygg að atkvæðagreiðslur í ýmsum félögum hafi nú sýnt að svo var vegna þess að til að fallast á þær mjög svo hóflegu launahækkanir sem kjarasamningarnir gerðu ráð fyrir þurfti tvennt. Það þurfti vissu um að ríkisstjórnin vildi halda aftur af verðlagshækkunum og hefði skilning á kjörum lægst launaða fólksins í landinu. Hvorugu var til að dreifa.

Það er sennilega furðulegasta útspil ríkisstjórnar í kjarasamningum á síðari tímum að ríkisstjórnin hóf hið nýja ár áður en kjarasamningar komu til atkvæðagreiðslu á því að tilkynna um 20% hækkun á komugjöldum í heilsugæslu og ýmsum öðrum sjúklingagjöldum. Þegar hún var spurð að því hvort hún væri tilbúin að endurskoða 25% hækkun á skólagjöldum í landinu sagði hún blátt nei hér í ræðustól þingsins.

Auðvitað er hægt að hafa á því skilning að það skorti allan trúverðugleika um það að ríkisstjórnin hafi haft vilja til þess að halda aftur af verðlagi og stuðla að hóflegum kjarasamningum í landinu. Auðvitað er mikil synd að ríkisstjórnin hafi ekki verið (Forseti hringir.) tilbúin að fylgja því góða fordæmi sem sveitarfélögin sýndu með því að kalla aftur verðhækkanir sínar.

Er ríkisstjórnin tilbúin að endurskoða málin núna?