143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlakka til að sjá hvernig hæstv. utanríkisráðherra mun beita sér á þessum vettvangi. Nú eru komin fleiri tækifæri til þess. En það er ekki nóg að hafa tækifæri, það verður að nota þau þannig að við sjáum til.

Eitt tækifæri höfum við misst og það er náttúrlega að gera fríverslunarsamning við Taívan, af því höfum við misst. Það kemur í ljós að Ísland fylgir þeirri stefnu að Kína sé eitt óskipt ríki o.s.frv., við erum að samþykkja þetta, þannig að við misstum þetta. Þetta er ekki alveg ókeypis.

Ég er hlynntur fríverslunarsamningum. Þeir eru að vísu ekki alveg frjáls viðskipti og alls konar pólitík er tengd inn í þá sem er óheppilegt. En ókei, við skulum vera mjög meðvituð um við hvern við erum að gera þennan samning, í hvers konar dans við erum að fara og hvaða áhrif það hefur. Kína er ríki sem var niðurlægt af samningum sem það var þvingað í. Kínverjar hugsa í öldum og þjóðernisstefna er að vaxa í landinu, þannig er verið að halda því saman. Við skulum því vera mjög meðvituð og gera þetta með opin augu.