143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

hagsmunir íslenskra barna erlendis.

[15:21]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. innanríkisráðherra eftir því hvað íslensk yfirvöld gera til að tryggja hagsmuni íslenskra barna í útlöndum, eins og við skuldbundum okkur með lögum til að gera.

Ég spyr að gefnu tilefni. Við höfum fengið fregnir undanfarið af erfiðu forræðismáli dansks föður og íslenskrar móður og Hæstiréttur á Íslandi hefur nú dæmt móðurina í framsal til Danmerkur og þar með börnin líka.

Sérstök evrópsk þingnefnd var að störfum í Danmörku 2013 og rannsakaði sérstaklega aðferðir og dómsúrskurði Dana í forræðismálum þar sem annað foreldri er af erlendu bergi brotið, m.a. þetta tiltekna mál. Nefndin komst að því að verulega hallaði á meðferð og á að réttur erlendra foreldra sé virtur til jafns við þá dönsku. Því er eðlilegt að spurt sé: Hefur innanríkisráðuneytið gengið úr skugga um að hagsmunir íslensku barnanna séu tryggðir eða hyggst það gera það?