143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[15:56]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu er auðvitað alvarlegt og það felur í sér mjög alvarlegar ávirðingar á hendur innanríkisráðuneytinu. Ég verð að taka undir með þeim þingmönnum sem tekið hafa til máls að það hlýtur að vera hagsmunamál Stjórnarráðsins og samfélagsins alls að málið sé rannsakað. Þá er auðvitað ekki nógu langt gengið þegar fram fer einhvers konar innanhússkönnun sem leiðir og bendir til þess að umræddar upplýsingar hafi ekki verið sendar úr ráðuneytinu, eins og hæstv. ráðherra komst að orði.

Ég veit ekki betur samkvæmt minni þekkingu en að starfsmenn innanríkisráðuneytisins sinni einmitt starfi sínu af mjög mikilli trúmennsku og séu mjög vandaðir embættismenn. Ég held að það væri mjög mikilvægt fyrir ráðuneytið og þennan málaflokk allan að ráðuneytið sé hreinsað af þeim ávirðingum sem hér um ræðir. Að því leyti vil ég hvetja hæstv. ráðherra, sem ég veit að hefur góðar meiningar í þessum málaflokki, til að láta framkvæma eins ítarlega, óháða og sjálfstæða rannsókn á þessu máli og mögulegt er, þannig að allur vafi sé hreinsaður. Í því þarf í sjálfu sér ekki að felast nein ásökun eða nein meining önnur en sú að trúverðugleiki og traust er algjört lykilatriði þegar kemur að samskiptum almennings og hælisleitenda við hið opinbera á Íslandi.