143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[16:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu, hún er mjög mikilvæg. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að við skoðum alla þessa umræðu í mun víðara samhengi því eins og komið hefur fram þá eru mun fleiri hælisleitendur hér en áður. Ég vil minna á það að í sögunni eru ýmis lönd sem hafa farið sérstaklega illa með útlendinga og önnur sem hafa verið talin hlutlaus í hinum ýmsu deilum en þegar betur er að gáð hafa þau ekki verið svo hlutlaus vegna þess að þau eru einfaldlega mjög dugleg í því að hafna hælisleitendum og hindra að fólk komi inn í landið. Ég óttast verulega að sú viðhorfsbreyting sé að eiga sér stað að við eigum einhvern veginn að reyna að stoppa fólkið frekar en að reyna að gera betur í viðbrögðum okkar í þessum málum.

Sem dæmi þá setjum við í fangelsi fólk sem kemur hingað inn á fölsuðum skilríkjum, fólk sem er bara að reyna að lifa — í alvöru talað, fólk sem vill bara lifa. Við tökum við því og við setjum það í fangelsi. Þetta er það sem við gerum í dag á Íslandi. Ég vil minna á hvernig fólk fordæmir Sviss fyrir vinnubrögð þar á sínum tíma.

En aðeins um þetta lekamál úr innanríkisráðuneytinu. Það sem gerir það mál erfitt og tortryggilegt eru viðbrögð hæstv. innanríkisráðherra. Það getur vel verið að þetta hafi ekki komið úr innanríkisráðuneytinu, það er í það minnsta alveg hugsanlegt. En viðbrögðin eru einhvern veginn þannig að það er sagt eitthvað á borð við: Þetta var ekki ráðuneytið mitt, þetta vorum ekki við, það bendir ekkert til þess.

Það á að fara fram rannsókn á þessu, sérstaklega vegna þess að málið er hápólitískt, óhjákvæmilega. Þegar upp kemur gagnrýni á störf hjá innanríkisráðuneytinu og það sem hefði kannski verið heppilegur leki en reynist ekki svo heppilegur þegar allt kemur til alls og þetta eru persónugögn þá þarf að gera ítarlegri rannsókn. Ég get ekki tekið undir það að varnir séu fullnægjandi eins og talið er. Því miður lýkur tíma mínum hér og ég get ekki rætt tæknilegu atriðin með fullnægjandi hætti (Forseti hringir.)en ég fullyrði að varnirnar eru ekki fullnægjandi.