143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[16:10]
Horfa

Sigurjón Kjærnested (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málsflytjanda fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir skýr svör.

Í fyrsta lagi varðandi þær ásakanir um að trúnaðargögnum hafi verið lekið frá innanríkisráðuneytinu þá hefur ekkert komið fram sem í alvöru sýnir fram á eða bendir til að svo hafi verið. Mér er því óskiljanlegt hversu vel þessi umræða endist og í raun er það til marks um að stjórnarandstaðan er að leita sér að einhverju að tala um.

Í öðru lagi er annar mikilvægur punktur í umræðunni sem mig langar að koma inn á: Af hverju eru gögnin trúnaðargögn? Á Norðurlöndunum eru niðurstöður í málefnum hælisleitenda opinberar á sama hátt og niðurstöður í dómsmálum. Það er mun gegnsærra, mun betra fyrirkomulag og í raun mun eðlilegra á margan hátt.

Í þriðja lagi vildi ég koma inn á áherslu ríkisstjórnarinnar vegna breytinga á lögum um útlendinga. Þær eru í rauninni ekki flóknar og algjörlega til bóta og ættu ekki að vera umdeildar. Það er verið að fara norsku leiðina þegar kemur að móttöku og seinna aðlögun allra innflytjenda þar sem þeir eru á margan hátt til fyrirmyndar. Það á að auka gæði, stytta tímann og einfalda til muna móttöku og meðferð hælisleitenda. Þetta eru góðar breytingar sem ég vona að allir styðji.

Að síðustu vildi ég koma inn á hvernig hagsmuna innflytjenda er gætt almennt, vegna þess að erum að tala um hluta af þeim, við erum að tala um hælisleitendur. Hér á Íslandi eru ekki starfandi nein heildarhagsmunasamtök innflytjenda. Ég vil nota þennan vettvang og þessa umræðu til að hvetja til þess að slík samtök verði stofnuð þar sem þau geta gegnt mikilvægu hlutverki við að vernda hagsmuni allra innflytjenda og þeirra sem vilja gerast innflytjendur á Íslandi, hælisleitenda sem annarra.