143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[16:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir síðustu orð hv. þingmanns Sigurjóns Kjærnesteds um að það væri fínt að fá hagsmunasamtök fyrir innflytjendur og sérstaklega hælisleitendur því að það vantar hér á Íslandi. Hér er víða pottur brotinn.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um það hvers vegna þetta eru trúnaðargögn er svarið í raun og veru einfalt. Þetta varðar friðhelgi einkalífsins, þetta varðar persónuleg gögn. Það er munur á gegnsæi hins opinbera og friðhelgi einkalífs þegnanna og fólks almennt, þess vegna heita þau jú mannréttindi en ekki ríkisréttindi. Þetta er ástæðan fyrir því. Sömuleiðis vil ég benda á að í meðferð trúnaðargagna í dómsmálum er ekkert klippt og skorið, það er ekkert fullkomin sátt um að þau eigi einfaldlega öll að vera opinber, síður en svo.

Hvað varðar 48 klukkustunda regluna og aðferðir Norðmanna almennt hef ég enn og aftur áhyggjur af því að verið sé að ýta vandanum burt yfir á einhvern annan sem síðan ýtir vandanum eitthvert annað. Þetta er ekki mannúðleg leið að mínu mati. Þó að hún leysi vissulega vandann með biðlistana og stytti þá ættum við leysa þann vanda með því að gefa í gagnvart Útlendingastofnun. Útlendingastofnun vantar fjármagn, ekki bara til þess að afgreiða hælisumsóknir heldur bara umsóknir almennt. Þetta er mjög fjársvelt stofnun eins og þær margar. Eins og komið hefur fram er þetta málaflokkur sem er sífellt að stækka og þarf sífellt meiri athygli og það er við hæfi að gefa í með öðrum leiðum en þeim að vera fljótari að ýta fólki burt. En það verður væntanlega niðurstaðan vegna þess að vandinn er sá að við höfum ekki tækifæri til að fara yfir allar þessar umsóknir.

Það sem eftir stendur er þetta: Það verður rannsókn á málinu sem ríkislögreglustjóri mun væntanlega ljúka. Hún er sprottin af kæru, hún er vegna kæru sem kemur frá skjólstæðingi, sem ég ætla að kalla fórnarlambið. Hvers vegna kemur hún ekki frá hæstv. innanríkisráðuneyti? Hvers vegna er það ekki innanríkisráðuneytið sem er hneykslað og segir: Við þurfum að gera opinbera rannsókn á þessum málum? Þannig ætti það að vera. (Forseti hringir.) Það eru viðbrögðin við málinu sem gera þetta ljótt.