143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[16:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu eru í uppnámi. Svo áratugum skiptir hafa slökkviliðsmenn annast sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu. Eftir að byggðasamlagið Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var sett á stofn árið 2000 hefur starfslið þess séð um sjúkraflutninga og eru þeir nú eitt helsta viðfangsefni Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Þannig voru útköll vegna slökkvistarfa einungis á bilinu 4–6% á árunum 2006–2011, en útköll vegna sjúkraflutninga á bilinu 94–96%. Sjúkraflutningar falla undir heilbrigðisþjónustu og kostnaður við starfsemina greiðist því úr ríkissjóði.

Í byrjun ársins 2012 rann út samningur um sjúkraflutninga milli Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og velferðarráðuneytisins, en Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur með óaðfinnanlegum hætti sinnt sjúkraflutningum þau rétt rúm tvö ár sem liðin eru síðan umrætt samkomulag féll úr gildi, en ekki hefur tekist að koma á nýju samkomulagi þrátt fyrir umleitanir í þá átt. Veldur þar mestu ágreiningur um verðlagningu á sjúkraflutningum sem heilbrigðisráðherra telur of háa, en talsmenn slökkviliðsins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu álíta hana ekki mega vera lægri.

Eftir þrátefli viðsemjenda undanfarið stefnir nú í að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hætti sjúkraflutningum og höfði mál á hendur velferðarráðuneytinu vegna vangoldinna greiðslna fyrir sjúkraflutninga. Ágreiningsmál í deilu ráðherra við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vegna sjúkraflutninga eru því tvíþætt. Annars vegar snúast þau um samningaviðræðurnar og það mikilvæga öryggisatriði fyrir þá sem á höfuðborgarsvæðinu búa, fara um og starfa, að halda samrekstri slökkviliðs og sjúkraflutninga áfram með hagsmuni beggja samningsaðila að leiðarljósi. Hins vegar er um að ræða innheimtumál þar sem sveitarfélögin hafa gripið til þess neyðarúrræðis að stefna ríkinu til að greiða kostnað við sjúkraflutninga á árunum 2012 og 2013 á meðan enginn samningur hefur verið í gildi.

Aðilar málsins komu sér saman um það sumarið 2012 að fá óháðan aðila til að fara yfir ágreiningsmál þeirra og gera á þeim úttekt. Fyrirtækjasvið KPMG varð fyrir valinu og skýrsla um málið kom frá hendi fyrirtækisins haustið 2012. Þar kemur fram að áætlanir Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um kostnað við sjúkraflutninga þykja raunhæfar, enda voru þær byggðar á reynslu. KPMG taldi sig ekki geta metið áætlanir velferðarráðuneytisins um rekstur sjúkraflutninga í nýju félagi, en benti á að ýmsir þættir fælu í sér áhættu fyrir gildi áætlana velferðarráðuneytisins og nefndi í því sambandi m.a. mannafla, húsnæði, gæðakröfur, stofnkostnað og yfirfærslu.

KPMG áleit að ekkert væri því til fyrirstöðu í sjálfu sér að ríkið stofnsetti nýtt fyrirtæki til að annast sjúkraflutninga ef talið væri að þeim yrði betur borgið með þeim hætti, en benti jafnframt á að ekki mætti líta fram hjá þeirri áhættu við aukinn kostnað vegna þeirra þátta sem áður voru nefndir. KPMG benti einnig á veruleg jákvæð samlegðaráhrif af því að starfrækja sjúkraflutninga og slökkvilið sem eina einingu og má því ætla að þetta hljóti að vera hagstæður kostur fyrir fjárhag íbúa höfuðborgarsvæðisins en einnig frá fjárhagslegu sjónarmiði, bæði sveitarfélaganna og ríkisins.

Það er líka mikilvægt öryggisatriði fyrir alla þá fjölmörgu sem þurfa á þjónustunni að halda að vita hana í góðum höndum kunnáttufólks sem býr yfir víðtækri reynslu og þekkingu. Í því efni er ekki hægt að leyfa sér pólitískar skylmingar.

Herra forseti. Það eru miklir hagsmunir í húfi og það geta hæglega verið mannslíf í húfi takist ekki að tryggja framtíð sjúkraflutninga á fjölmennasta svæði landsins út frá heildarhagsmunum. Það má heldur ekki gleyma því að öflugir og traustir sjúkraflutningar byggðir á sérþekkingu starfsfólksins í slökkviliðinu geta hæglega dregið úr kostnaði við heilbrigðiskerfið að öðru leyti.

Sveitarfélögin hafa í góðri trú verið í viðræðum við ríkisvaldið. Þá er rétt að minna á að stjórnvaldið er eitt og hið sama þótt skipt sé um ráðherra í ríkisstjórninni. Hér eru allt of miklir hagsmunir í húfi til að ráðherra geti leyft sér að keyra málið aftur á byrjunarreit, jafnvel þótt ríkisstjórninni virðist mikið í mun að vinda ofan af öllu sem fyrri ríkisstjórn fékkst við.

Ég vil þess vegna beina eftirfarandi spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hyggist ráðherra ganga til viðræðna við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á grunni þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin? Ef ekki, hvernig hyggist hann haga samskiptum sínum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu? Er hæstv. ráðherra sammála því að samrekstur slökkviliðs og sjúkraflutninga sé hagkvæmur kostur fyrir alla aðila hér á höfuðborgarsvæðinu líkt og svo víða annars staðar á landinu? Hvaða áform hefur hæstv. ráðherra um að leysa þann vanda sem við blasir og það hættuástand sem hæglega getur skapast náist ekki samkomulag hið fyrsta?