143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[16:31]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka umræðuna. Hún er sannarlega mjög þörf og góð. Ég skil eiginlega ekki hvað er í gangi. Fólk er búið að vera að tala saman frá 2011. Það hefur vissulega verið í samningaviðræðum en þetta er búið að taka þrjú ár. Ráðherra kallar hér eftir gögnum. Það er búið að vinna greiningarvinnu, KPMG gerði það, en nú vill velferðarráðuneytið allt í einu ekki nota þá vinnu út af því að hún er því ekki nógu hagstæð. Þar eru settar fram mismunandi sviðsmyndir eftir gögnum velferðarráðuneytisins og svo eftir gögnum slökkviliðsins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að ég skil eiginlega ekki hvað ráðherra er að ræða um.

Er þetta kannski spurning um að ráðherra vilji hafa þetta einhvern veginn öðruvísi? Þá skulum við bara ræða það. Það er miklu heiðarlegra.

Núna 17. janúar sögðu þessi sveitarfélög og slökkviliðið upp samningnum við ríkið og boltinn er náttúrlega hjá því, þau hafa beðið í þrjú ár. Mér er alveg sama þótt fyrri ríkisstjórn hafi unnið að þessu. Er það bara „átómatískt“ að næsta fólk geti ekki tekið við? Hvers lags eiginlega vitleysa er þetta? Það er búin að fara fram góð vinna og við eigum að halda henni áfram og koma okkur upp úr þessu rugli.