143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

Hús íslenskra fræða.

174. mál
[17:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. fyrirspyrjanda, Helga Hjörvar, fyrir fyrirspurn hans. Ég vil jafnframt nota hér tækifærið vegna þeirra orða sem hér féllu áðan, til að fyrirbyggja allan misskilning, og segja að þessi framkvæmd, Hús íslenskra fræða, hefur ekki verið slegin af, það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um að hætta við hana. Ég minni á að t.d. í tillögum hagræðingarhópsins svokallaða var talað um að framkvæmdinni yrði frestað og það hefur margsinnis komið fram af minni hálfu að um sé að ræða frestun. Ég held að mikilvægt sé að menn hafi þetta í huga.

Jafnframt er það svo, þó að við séum auðvitað öll óþolinmóð og viljum svo gjarnan að þetta hús rísi, að það var forgangsatriði við gerð síðustu fjárlaga að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum og um leið var líka ráðist í gríðarlegt átak við að bæta stöðu heilbrigðiskerfisins sem ekki var vanþörf á. Það er því ekki svo að að baki liggi skortur á ræktarsemi við verkefnið heldur einfaldlega þau tvö sjónarmið sem ég lýsti hér.

Hvað varðar þær spurningar sem hv. þingmaður beindi til mín er í fyrsta lagi spurt:

„Hver er orðinn heildarkostnaður við undirbúning og framkvæmdir við Hús íslenskra fræða?“

Svarið er þetta, virðulegi forseti: Heildarkostnaður er orðinn um 590 millj. kr. Hann sundurliðast í ráðgjöf, kostnað samkvæmt upphaflegum hönnunarsamningi ásamt umsömdum viðbótarverkum og kostnaði við umsjón og eftirlit, 364 millj. kr., jarðvinna 107 millj. kr., og gjöld og rekstur á framkvæmdatíma 119 millj. kr., þar af gatnagerðargjöld um 114 millj. kr.

Í öðru lagi spurði hv. þingmaður að því hver áætlaður kostnaður verði við það að fylla í grunninn og ganga frá lóðinni.

Svarið er þetta: Áætlaður heildarkostnaður við að fylla í grunn og ganga frá lóð, komi til þess, er um 70 millj. kr. Auk þess eru áætlaðar útistandandi skuldbindingar um 40 millj. kr. eða samtals 110 millj. kr. Á móti kemur að gera má ráð fyrir að gatnagerðargjöld, sem eru 114 millj. kr., fáist endurgreidd.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður þess hvað áætlað sé að greiða þurfi lægstbjóðanda í bætur verði ekki af verkinu, samanber m.a. Héðinsfjarðargöng.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að samkvæmt dómi Hæstaréttar var ríkissjóði gert að greiða lægstbjóðanda í Héðinsfjarðargöng sem nemur 4,2% af tilboðsupphæð, sem mundi nema í tilfelli Húss íslenskra fræða um 130 millj. kr. En það er rétt að hafa eftirfarandi í huga: Fordæmið um skaðabætur vegna Héðinsfjarðarganganna er ekki sambærilegt við frestun á framkvæmdum við Hús íslenskra fræða. Þar var ríkið dæmt í Hæstarétti til að greiða lægstbjóðanda 260 millj. kr. í bætur eftir að stjórnvöld hættu við framkvæmd ganganna, vegna þenslu í samfélaginu árið 2003. Árið 2009 var verkið boðið út að nýju og annar aðili fékk verkið. Skaðabætur voru dæmdar til lægstbjóðanda í útboðinu sem fór fram 2003 sökum þess að hann missti af framkvæmdum í útboðinu 2009.

Í tilviki Húss íslenskra fræða hefur ekki verið hætt við byggingu hússins heldur hefur framkvæmdinni verið frestað og því ekki útséð með að lægstbjóðandi muni fá verkið. Með öðrum orðum, það þarf að koma til ákvörðun um að hætta verkinu samkvæmt þessu.

Í fjórða lagi spurði hv. þingmaður hvort ríkisstjórnin væri tilbúin til að endurskoða áform um stöðvun verksins ef Háskóli Íslands leggi fram sinn hlut í framkvæmdinni fyrr en áætlað var.

Svarið við þessu er að mikilvægt er að heildarfjármögnun sé tryggð og því er ekki tímabært að setja verkið af stað aftur fyrr en fyrir liggur hvenær ríkissjóður getur lagt fé til verksins þannig að ekki komi til frekari stöðvunar á verkinu á verktímanum.