143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.

181. mál
[17:40]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Ég ætla nú ekki að fara að fjalla um þá makalausu ræðu sem hér var flutt, hvorki þær fullyrðingar sem settar voru fram í henni um herfileg hagstjórnarmistök hér á árum áður né um aðdragandann og söguskýringuna á því hvernig staðið var að hækkun síðustu ríkisstjórnar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu. Ég er ekki alveg viss um að við deilum sömu sýn á það hvernig að því var staðið.

Ég ætla hins vegar að einbeita mér að því að svara fyrirspyrjanda og þeim fyrirspurnum sem hann lagði fyrir mig. Í fyrsta lagi var spurt hvort það hefði verið kannað í hve ríkum mæli — og ég leyfi mér kannski að koma með eina athugasemd við spurninguna en í henni er ekki sagt „hvort“ heldur „í hve ríkum mæli“, sem mér finnst nú vera að gefa sér niðurstöðuna fyrir fram — hótel og aðrir gististaðir hefðu þegar tekið fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts inn í gjaldskrár sínar.

Því er til að svara að ráðuneytinu er ekki kunnugt um að gerð hafi verið gerð sérstök úttekt á því hvort eða eins og fyrirspyrjandi eins og áður segir orðaði það, í hve ríkum mæli, hótel og aðrir gististaðir hefðu tekið þessa hækkun virðisaukaskatts inn í gjaldskrár sínar áður en fallið var frá innheimtunni. Við sendum þessa fyrirspurn til Hagstofunnar og til Samtaka ferðaþjónustu. Samtök ferðaþjónustunnar greina frá því að verðlagning í ferðaþjónustu á Íslandi eigi sér ávallt stað með löngum fyrirvara og því hefði það ekki komið til að ferðaþjónustuaðilar innan vébanda SAF næðu að hækka gjaldskrár sínar til samræmis við fyrirhugaðar breytingar á þeim tíma. Það kom einnig fram í svari SAF að þær greiðslur sem áttu sér stað fram í tímann fyrir ferðatímabilið eftir 1. september 2013 voru allar innheimtar miðað við 7% virðisaukaskatt enda var gilti sá skattur á þeim tíma.

Á vef Hagstofunnar er hægt að fylgjast með verðþróun á hótelum og gististöðum. Með vísan til fyrirspurnarinnar tók ráðuneytið saman upplýsingar um verðþróun á hótelum og gististöðum á tilteknum tímabilum frá 2008–2013 og þau borin saman þar sem almennt eru miklar sveiflur í verði á gistingu hér á landi. Við ákváðum að skoða sérstaklega tímabilið september til desember en þá má ætla að gististaðir séu að jafnaði búnir að ganga frá sölu á gistingu fyrir sumarið á eftir og einnig má vísa til þess að umræðan um fyrirhugaða hækkun á þeim tíma, 2012, var mest á því tímabili.

Í samantekt ráðuneytisins kemur fram að verðhækkun á hótelum og gististöðum í september til desember á tímabilinu 2008–2013 hafi að meðaltali verið um 8%. — Virðulegi forseti, mér skildist að ég ætti tvær mínútur í viðbót.

Ef skoðað er sérstaklega tímabilið september til desember árið 2012 og það borið saman við sama tímabil á árinu 2011 nam hækkunin 10%. Það er kannski ekki hægt að fullyrða um það en ætla má að 2% hækkun umfram meðaltal megi rekja að einhverju leyti til aukinnar eftirspurnar erlendra ferðamanna eftir gistingu hér á landi.

Við skoðuðum einnig til samanburðar meðaltalsverðhækkun á tímabilinu frá apríl til júní á síðustu fimm árum og var meðaltalshækkun á því tímabili um 10% en 9% milli áranna 2012 og 2013.

Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Kannski vekur hún að mestu leyti athygli á þeirri staðreynd hversu gögn og rannsóknir í ferðaþjónustunni eru af skornum skammti. Það er eitthvað sem greinin sjálf hefur bent á og kallað eftir aðkomu hins opinbera í að gera úrbætur á. Við erum að leita leiða til þess að bæta úr þessu vegna þess að það er algjörlega óásættanlegt að við séum ekki með betri tölur til skoðunar í þessari grein.

Í öðru lagi var spurt hvort fylgst hafi verið með því hvort hótel og gististaðir hefðu hækkað gjaldskrár til samræmis við þessa fyrirhuguðu hækkun og má segja að svarið við fyrri spurningunni svari þessari spurningu líka. Það er ekki hægt að álykta út frá þeim opinberu gögnum sem til eru að hótel og gististaðir hafi hækkað verðskrár sínar á tímabilinu frá haustinu 2012 til júní 2013. Þar með er heldur ekki hægt að segja að þau hafi dregið hækkanirnar til baka.