143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.

181. mál
[17:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, þau voru greinargóð og athyglisverð. Samkvæmt því sem hér er upplýst er ljóst að umtalsverð raunhækkun hefur orðið á gistingu. Þessar tölur eru þó nokkuð umfram verðbólgu þeirra ára sem hæstv. ráðherra nefndi og það er í nokkurri mótsögn við málflutning greinarinnar um að 7% hækkun virðisaukaskatts mundi ríða henni algjörlega á slig, við erum að tala þarna um 8–10% verðhækkanir milli ára á þeim árum sem hæstv. ráðherra nefndi í svari sínu. Ég gef mér að hér sé átt við hækkun í íslenskum krónum að sjálfsögðu, en engu að síður er það svo að þetta eru hækkanir talsvert umfram verðbólgu.

Í sjálfu sér er það gott ef samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar býður upp á það að vera að þoka verðinu upp á við, en þá er líka spurning hvort ríkið væri ekki sæmilega að því komið að fá einhverja hlutdeild í þeirri bættu samkeppnisstöðu greinarinnar. Og má ég þá líka minna á að á sömu árum hefur hið opinbera verið að leggja stóraukna fjármuni, eða var að minnsta kosti fram að stjórnarskiptum, opinbera fjármuni, skattfé, í uppbyggingu greinarinnar, bæði í markaðsátak í samstarfi við greinina og í fjárfestingu í innviðum ferðaþjónustunnar og uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða.

Að sjálfsögðu er ég ekki að gera því skóna að ferðaþjónustan setji ekki rétta virðisaukaskattsprósentu á reikningana að lokum. Spurning er um ofan á hvaða grunnverð. Ég vil láta það koma hér fram, frú forseti, þó að það sé auðvitað erfitt að geta ekki tilgreint heimildir sínar ef maður byggir á þeim, að þessi fyrirspurn er að sjálfsögðu ekki lögð fram í einhverju tómarúmi. Hún er vegna ábendinga sem ég, sem þekki sæmilega til í þessum geira, hef fengið og fékk á síðasta hausti frá þó nokkrum aðilum, þar á meðal aðilum sem voru sáróánægðir með að þessi hækkun skyldi ekki vera látin standa úr því sem komið var og fannst sumum þeirra alveg kominn tími til að þessi vaxandi og blómlega atvinnugrein(Forseti hringir.) legði aðeins meira af mörkum, til dæmis bændagistingin sem hefur verið byggð upp um allt land með (Forseti hringir.) verulegum opinberum fjárstuðningi.