143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.

181. mál
[17:48]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég bendi hv. fyrirspyrjanda á að hann gleymdi penna merktum Vinstri grænum í pontunni. (SJS: Ráðherra má eiga pennann.) Já, þakka þér fyrir.

Það er ýmislegt fleira sem var athyglisvert í þessum tölum sem ég komst ekki yfir að nefna áðan. Hv. fyrirspyrjandi nefnir að hann fagni því að þarna hafi væntanlega orðið verðmætasköpun í greininni með hækkun umfram verðbólgu. Þá get ég vakið athygli á því að í september til desember á árinu 2010, eða á milli áranna 2010 og 2011, hækkaði verð á gistingu um 24%. Á tímabilinu apríl–maí hækkaði það um 15%. Þetta eru allt sambærilegar tölur við það sem ég legg fram hér. Gengi íslensku krónunnar nú er ekki svo mikið breytt frá því sem það var árið 2010. Þessar tölur sýna því að það er ekki fyrst núna sem við sjáum hækkun á verði gistingar.

Ég get verið sammála hv. þingmanni um eitt og það er að bilið á milli lægra þreps virðisaukaskatts og hærra þreps er allt of mikið. Hæstv. fjármálaráðherra er einmitt að hefja vinnu við að endurskoða þetta og ég fagna því að sú athugun og sú breyting verði gerð með það að leiðarljósi að minnka þetta bil og einfalda kerfið. Eitt af því sem ég gagnrýndi síðustu hæstv. ríkisstjórn einna mest fyrir var að þegar upprunalegu fyrirætlanirnar um að fara með virðisaukaskatt á gistingu úr 7% í 25,5% gengu ekki upp var ákveðið að skella á enn öðru þrepinu, 14% þrepi, til þess að draga úr skaðanum, ef svo mætti segja. Það varð til þess að þá vorum við í raun (Forseti hringir.) komin með fjögur virðisaukaskattsþrep í ferðaþjónustunni og það er einfaldlega of mikið. (Forseti hringir.) Fyrirhuguð endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu hugnast mér því vel og ég vona að sú vinna gangi hratt og vel og við sjáum afrakstur hennar von bráðar.