143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[14:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta er komið svona langt. Málið hefur verið rætt, var rætt í allsherjarnefnd þegar ég sat í henni fyrir þremur eða fjórum árum.

Frumvarpið átti að koma fram í september eða október samkvæmt þingsályktunartillögunni sem samþykkt var í júní en kom ekki fram fyrr en miklu seinna og ekki var hægt að afgreiða það fyrir áramót eins og til stóð. Nú kemur smákvíðahnútur í magann á mér því að það á eftir að semja reglugerð en samt eiga lögin ekki að gilda nema út þetta ár og þá á að endurskoða þau. Hvenær á reglugerðin að vera tilbúin, er búið að setja einhver tímatakmörk um það?

Síðan óttast maður það alltaf þegar svona lög eru samin að einhver þröng skilyrði séu sett neðan máls. Ég hef lesið þetta og talaði við fulltrúa míns þingflokks í nefndinni og ég þykist nú orðin nokkuð sannfærð um að þarna séu ekki einhver atriði, smáatriði, sem maður mundi segja ef maður væri með tryggingarskilmála, í smáa letrinu sem gerðu það að verkum að fáir gætu notað þetta. Ég hreinlega treysti því að svo sé, ég hef ekki rekist á það.

Það sem ég vil aðallega spyrja um og mundi velta fyrir mér: Er ekki rétt að setja ráðherranum tímatakmörk um hvað hann eða starfsfólk hans má vera lengi að semja þessa reglugerð og skrifa undir?